Hamingjudagar 2019 verða haldnir 28. – 30.júní.
Fyrstu Hamingjudagarnir á Hólmavík voru haldnir árið 2005 og hafa þeir verið árviss viðburður æ síðan.
Tilgangurinn með því að halda Hamingjudaga er tvíþættur. Annars vegar er hátíðin átthagamót fyrir brottflutta Strandamenn og Hólmvíkinga, vettvangur til að hittast og eiga góða stund á heimaslóð.
Hinn megintilgangurinn með hátíðinni er að sem flestir taki þátt í hátíðinni með sínum hætti á sínum forsendum. Með virkri þátttöku í hátíðinni hjálpa menn til við að uppfylla meginmarkmið hennar sem er að hver einasti íbúi í Strandabyggð ásamt gestum hátíðarinnar finni fyrir innri hamingju, hugarró, gleði og kærleika í hverju skrefi.
Hafinn er undirbúningur fyrir hátíðina í ár og kemur fram á vef Strandabyggðar að leitað er eftir áhuga einstaklinga, fyrirtækja og samtaka á svæðinu á þátttöku/sýnileika þessa daga. Í fyrra var t.d. vöfflukaffi í boði fyrir gesti og gangandi hjá Hólmadrangi og gekk það vel, segir í fréttinni.
Ungmennin í Strandabyggð hafa komið með hugmyndir og hvatt til að litið verði til fyrri daga. Þau eiga þá við hverfalitina, hverfagrill, marseringu, markað o.fl.
Eru áhugasamir beðnir um að hitta tómstundafulltrúa Strandabyggðar í Hnyðju, húsnæði sveitarsfélagsins miðvikudaginn 15.maí kl.16-18 eða senda línu á tomstundafulltrui@strandabyggd.is eða hringja í síma 4513511/6967046.