Nú er til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Hér er því kjörið tækifæri fyrir íslensk stjórnvöld að marka skýra stefnu í málefnum fiskeldis.
Margir hafa lesið eða heyrt um að áður en fiskeldisleyfi er veitt skal meta burðarþol viðkomandi svæðis. Burðarþol (e. carrying capacity), sem hljómar tiltölulega einfalt, er í raun flókið samspil margra þátta sem teknir saman svara spurningunni: «Hve mikið eldi er hægt að hafa á ákveðnu svæði án þess að valda óafturkræfum skaða». Yfirleitt er talað um fjóra höfuðþætti, eða flokka þátta, sem eru: 1) eðlisfræðilegir þættir, ss. hafstraumar, súrefni og hitastig, 2) framleiðslutengdir þættir, ss. fóður og innviðir, 3) vistfræðilegir þættir, ss. þörungablómi og líffræðilegur fjölbreytileiki og 4) samfélagslegir þættir ss. búsetuskilyrði og atvinnutækifæri.
Áhættumatið sem unnið var af Hafrannsóknastofnun er í raun einn hluti burðarþolsmatsins en hefur verið sett fram sem sérstakt skjal. Það er gert með það fyrir augum að á sem bestan hátt sé hægt að vernda villtan íslenskan lax. Slíkt mat er mikilvægt, um það geta allir verið sammála, en til að slíkt mat nýtist stjórnvöldum við úthlutun starfsleyfa þarf það einnig að taka til greina þær mótvægisaðgerðir sem mögulegar eru og líkur á að hafi áhrif á matið. Þetta er lykilatriði. Eðlilegt er að Hafrannsóknastofnun leiði slíka faglega vinnu og þá í samvinnu við fagaðila frá öðrum vísindastofnunum og fyrirtækjum. Slíkt samstarf skilar sér í vandaðri ráðgjöf og breiðri sátt um uppbyggingu fiskeldis. Í breytingartillögunum er lagt til að skipuð sé samráðsefnd (2.gr.b), að virðist til höfuðs vísindalegri vinnu Hafrannsóknastofnunar og samstarfsaðila. Hlutverk slíkrar nefndar sem í sitja fulltrúar hagsmunaaðila á ekki að vera að rýna vísindaleg vinnubrögð Hafrannsóknastofnunar og samstarfsaðila, heldur að koma sjónarmiðum hagsmunaaðila á framfæri sem hluta af heildar ráðgjöf til stjórnvalda. Það eru jú stjórnvöld sem á endanum bera ábyrgð á og veita starfsleyfi fyrir fiskeldi. Í þessu felst góð stjórnsýsla þar sem vísindamenn sinna vísindalegu hlutverki, hagsmunaðilar koma með sjónarmið út frá rekstrarlegum forsendum og stjórnvöld sinni stjórnsýslunni.
Það er því kjörið tækifæri fyrir ríkisstjórn Íslands að móta öfluga stefnu í fiskeldi til að tryggja vöxt greinarinnar með það fyrir augum að bæði umhverfi og íbúar landsins geti átt sér lífvænlega framtíð.
En hvert er svo framhaldið þegar burðarþol ákveðins svæðis hefur verið metið og áhættumat liggur fyrir?
Hér komum við að þætti sem alltof margir misskilja og rugla gjarnan saman við burðarþolsmatið, en hér er átt við lögbundna vöktun eldisstarfseminnar. Á meðan burðarþol er í dag reiknað út frá hámarks eldi miðað við magn súrefnis, þá er vöktun mun ítarlegri og tekur tillit til uppsöfnunar lífræns efnis (sem sumir kjósa að kalla skít) undir og í ákveðinni fjarlægð frá eldiskvíum auk þess sem fjölbreitni lífríkisins er skoðuð og mat lagt á breytingar.
Mikilvægt er að vöktun sé unnin af óháðum fagaðila, ekki síst í ljósi þess að eldisaðilar bera ábyrgð á því að vöktun sé framkvæmd og því óeðlilegt að sami aðili geri burðarþolsmat og sinni svo vöktun. Það er því slæmt að í nýrri tillögu um breytingar á fiskeldislögum (6.gr. b) sé lagt til að Hafrannsóknastofnun sinni bæði mati á burðarþoli og vöktun. Slíkt mun skapa hagsmunaárekstra og valda því að mikilvægi óháðra rannsókna sé kastað fyrir róða og öðrum fagaðilum, hvort sem um er að ræða háskóla eða einkafyrirtæki, sé meinuð þátttaka í rannsóknum er tengjast lífríki Íslands.
Til að stefnumörkun í fiskeldi sé raunhæf er mikilvægt að njóta ráðgjafar vísindamanna – bæði Hafrannsóknastofnunar sem og annarra, enda getur engin ein stofnun haft á herðum sínum alræðisvald þegar kemur að svo mikilvægum málaflokki.
Með þessu móti mun nást fram megin markmið laga um fiskeldi, sem er að skapa skilyrði til uppbyggingu fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu og tryggja verndun villtra nytjastofna.
Höfundar