Öryrkjabandalag Íslands verður með almennan fund á Ísafirði

Öryrkjabandalag Íslands verður með almennan fund á Ísafirði 9. maí, kl. 17:00 – 19:00 á 4. hæð í Stjórnsýsluhúsinu.

Hópur áhugafólks öryrkja og fatlaðra í Ísafjarðarbæ stendur fyrir fundi Öryrkjabandalags Íslands á Ísafirði á fimmtudaginn.

Fréttatilkynning um fundinn:

Hópur fatlaðs fólks og öryrkja í Ísafjarðarbæ hefur boðið Öryrkjabandalagi Íslands (ÖBÍ) að koma til Ísafjarðar, kynna starfssemi sína og reifa möguleika á samstarfi og samvinnu við félög fatlaðra og einstaklinga með ýmiskonar fötlun sem búa í Ísafjarðarbæ og annarsstaðar á Vestfjörðum. Halldór Sævar Guðbergsson varaformaður Öryrkjabandalagsins verður með almennan fund sem opinn er öllum, bæði fötluðum, aðstandendum og öðrum sem áhuga hafa á fötlunarmálum hér á svæðinu. Sigurjón Unnar Sveinsson lögmaður hjá ÖBÍ kemur einnig á fundinn og fjallar um samning Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og notendasamráð. Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 9. mæí kl. 17:00 – 19:00 á 4. hæð í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Öryrkjabandalag Íslands samanstendur af 43 aðildarfélögum fatlaðs fólks, öryrkja, einstaklinga með langvinna sjúkdóma og aðstandenda þeirra. Öryrkjabandalagið er því hagsmunasamtök ólíkra fötlunarhópa sem öll starfa á landsvísu. Því vakna spurningar um tengsl Öryrkjabandalagsins við félög og einstaklinga á landsbyggðinni og hvernig geta félög og einstaklingar á landsbyggðinni stutt Öryrkjabandalagið? Einnig væri fróðlegt að heyra um starf Öryrkjabandalagsins í skattamálum, lífeyrissjóðsmálum og öðrum réttindamálum fatlaðra og öryrkja. Við vonumst til að sjá sem flesta þann 9. mæí í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Allir eru hjartanlega velkomnir!

 

DEILA