Jóna Símonía ráðin forstöðumaður Byggðasafnsins

Stjórn Byggðasafns Vestfjarða hefur ákveðið að ráða Jónu Símoníu Bjarnadóttur í starf forstöðumanns safnsins og hefur hún störf þann 1. september næstkomandi.

Jóna lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði árið 1985 og BA prófi í sagnfræði við Háskóla Íslands árið 1992. Hún lauk diplóma í safnafræði árið 2017 við Háskóla Íslands, MLIS í bókasafns- og upplýsingafræði 2018 og diplóma í opinberri stjórnsýslu 2019 við sama skóla. Þá er hún um þessar mundir að ljúka við ritgerð til MA prófs í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Á árunum 1992 til 2010 starfaði Jóna á skjala- og bókasafninu á Ísafirði og frá árinu 2010 hefur hún gegnt starfi forstöðumanns Safnahússins / Gamla sjúkrahússins á Ísafirði, sem samanstendur af bókasafni, listasafni, ljósmyndasafni og skjalasafni. Árið 1998 starfaði hún jafnframt sem forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða í afleysingum.

Ekki hafa verið gefnar upplýsingar um aðra umsækjendur. Fundargerð stjórnar Byggðasafnsins hefur ekki verið birt.

DEILA