Á nýafstöðnu ÍSÍ þingi var samþykkt að stofna starfshóp sem kortleggja skal
möguleika þess að bæta úr brýnni þörf íþróttafólks af landsbyggðinni fyrir hagkvæma og
aðgengilega gistingu á Stór-Reykjavíkursvæðinu.
Birna Lárusdóttir, einn þingfulltrúa segir að þessi samþykkt hafi verið meðal þess sem stóð upp úr áí starfi þingsins.
Í tillögunni segir ennfremur að leita skuli samstarfs við UMFÍ um þessa vinnu.
Lagt er til að starfshópinn skipisjö manns, tveir fulltrúar frá sérsamböndunum, tveir frá héraðssamböndum og íþróttabandalögunum, einn fulltrúi frá UMFÍ og tveir fulltrúar úr stjórn ÍSÍ og skal annar þeirra gegna formennsku í starfshópnum.
Tillögum að úrbótum skal skilað til stjórnar ÍSÍ og þær kynntar sambandsaðilum fyrir næsta þing ÍSÍ en skýrslu um vinnuhópsins skal skila á formannafundum ÍSÍ haustin 2019 og 2020.
Með tillögunni, sem samþykkt var fylgdi svofelld greinargerð málinu til stuðnings:
„Þótt íþróttaviðburðir í flestum greinum séu haldnir víða um land lætur nærri að 75-80% af öllu keppnishaldi í landinu fari fram á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það kallar á mikil ferðalög iðkenda af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins sem þurfa að útvega sér þar gistingu í lengri eða skemmri tíma.
Þróunin undanfarin ár hefur verið sú að sífellt erfiðara er fyrir íþróttafélög af landsbyggðinni að útvega gistingu á viðráðanlegu verði fyrir íþróttafólk sitt. Jafnvel er orðið vandasamt að útvega gistingu yfirleitt ef fyrirvari á æfinga- og keppnisferðum er skammur.
Víða á landsbyggðinni er aðkomuliðum boðin aðstaða í skólum eða frístundaheimilum en slíkt þekkist varla á höfuðborgarsvæðinu, nema með örfáum undantekningum. Því leita félög á farfuglaheimili, gistiheimili eða ódýrustu hótel en ferðamannastraumurinn til Íslands undanfarin ár hefur dregið mjög úr framboði á slíku gistirými og verðið hefur rokið upp. Kostnaður við gistinguna hækkar ár frá ári. Þessi aukni kostnaður leggst nær alfarið á íþróttafólkið sjálft og fjölskyldur þeirra þar sem félögin eru illa í stakk búin til að standa undir þessum kostnaði til viðbótar þeim mikla ferðakostnaði sem íþyngir landsbyggðarfélögum.
Á árum áður bauð UMFÍ upp á hentuga og hagkvæma gistingu fyrir íþróttafélög. Það fyrirkomulag þótti gefast vel og gæti verið fyrirmynd í þeirri vinnu sem starfshópur um gistiaðstöðu mun inna af hendi. Einnig gæti verið ástæða til að kanna hvaða fyrirkomulag þekkist í þessum efnum í þeim löndum sem Ísland ber sig helst saman við.“