Ísfirðingurinn Gunnar Atli Gunnarsson er einn af fimm í starfshóp sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað um ráðstöfun tiltekinna aflaheimilda. Hefur starfshópurinn það hlutverk að endurskoða meðferð og ráðstöfun aflaheimilda sem ríkið fer með forræði yfir.
Um er að ræða 5,3% af heildarafla í hverri fisktegund sem tekið er til hliðar fyrir úthlutun aflamarks. Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða er þessum afla nú varið í strandveiðar, almennan og sértækan byggðakvóta, línuívilnun, rækju- og skelbætur og frístundaveiðar.
Starfshópnum er meðal annars falið að líta til þess hvort þeim markmiðum sem að var stefnt með þessum aflaheimildum hafi verið náð og eftir atvikum leggja til breytingar. Ber hópnum við þá vinnu að líta til eftirfarandi stefnumörkunar í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur:
„Vega þarf og meta fyrirkomulag þeirra aflaheimilda sem ríkið fer með forræði yfir, þ.m.t. strandveiða, með það að markmiði að tryggja betur byggðafestu og nýliðun.“
Jafnframt skal starfshópurinn leitast við að tryggja að mögulegar breytingar hámarki virði þeirra verðmæta sem felast í umræddum aflaheimildum.
Starfshópurinn er þannig skipaður:
- Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, formaður
- Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, alþingismaður
- Bergþóra Benediktsdóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra
- Gunnar Atli Gunnarsson, aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
- Þorsteinn Víglundsson, alþingismaður
- Starfshópurinn skal skila sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra greinargerð og tillögum eigi síðar en 1. nóvember 2019.