Eins fram kom á Bæjarins besta í gær veru verulegar áhyggjur vegna afgreiðslu atvinnuveganefndar Alþingis á frumvarpi um fiskeldi sem hefur verið þar til meðferðar. Snúa þær áhyggjur að óskýru orðalagi og því að einstökum stofnunum verði falið ákvörðunarvald með rúmt svigrúm til túlkunar.
Þegar breytingartillögur meirihluta nefndarinnar lágu fyrir var þegar í stað óskað eftir fundi með alþingismönnum kjördæmisins. Sá fundur var í gær og Bæjarins besta heyrði Guðmundi Gunnarssyni, bæjarstjóra í ísafjarðarbæ og innti hann eftir því hvernig fundurinn hefði gengið.
„Fundurinn var góður og við bindum miklar vonir við að nefndin greiði úr flækjunni“ sagði Guðmundur.
„Við náðum að koma áhyggjum okkar af stöðunni á framfæri. Forsagan er sú að við óskuðum eftir tafarlausri áheyrn þingmanna þegar ljóst var að orðalag í lagatexta frumvarpsins, eins og það lítur út eftir meðferð nefndarinnar, mun halda sveitarfélögum og fyrirtækjum á svæðinu í fullkominni óvissu. Hér eftir sem hingað til.
Ekki var annað að heyra á þingmönnum en að vilji væri til að eyða þeirri óvissu. Nú er bara að bíða og sjá.
Við höfum nefnilega alltaf lagt á það áherslu að lagaramminn verði að vera skýr. Við ábyrga uppbyggingu heillar atvinnugreinarinnar er ekki boðlegt að þingið skili af sér enn einni súpunni af lagatæknilegum glompum sem enda svo í fangi stofnana til túlkunar. Þann marvaða höfum við troðið alltof lengi án nokkurs árangurs.
Við verðum að komast á þann stað að hægt verði að skapa einhvern skynsamlegan fyrirsjáanleika við úthlutun leyfa og framtíð svæða. Að öllum sé ljóst hvert við stefnum í greininni.“
Guðmundur minntir svo á atvinnulega þýðingu greinarinnar fyrir byggðarlögin og landshlutann:
„Aðalatriðið er svo auðvitað að þess sé gætt að samfélögin sem fóstra munu fiskeldið, hafi burði til að byggja upp nauðsynlega innviði og umgjörð. Á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Af ýtrustu varúð og af virðingu við umhverfið. Sú afstaða okkar hefur ekkert breyst. Við höldum bara áfram að minna á hana.“