Árneshreppur: skipulagsbreytingar tefjast í Skipulagsstofnun

Skipulagsstofnun er til húsa í Borgartúni.

Skipulagsstofnun nær ekki að afgreiða deiliskipulagsbreytingar vegna rannsókna til undirbúnings Hvalárvirkjunar  innan þess tímaramma sem gefin er í skipulagslögum. Stofnunin skal afgreiða breytingarnar til auglýsingar innan þriggja vikna frá því að deiliskipulagið var móttekið.

Málið er ekki nýtt, því þessar breytingar eru hjá Skipulagsstofnun öðru sinni og hafði stofnunin gefið sína umsögn þá. Þá varð sveitarfélagið of seint til að auglýsa tillögurnar og varð því að endurtaka skipulagsferlið að hluta til með svo til óbreytta tillögu. Mátti því vænta þess að málið gengi greiðlega fyrir sig þegar það kæmi öðru sinni til Skipulagsstofnunar.

Svör Skipulagsstofnunar við fyrirspurn Bæjarins besta hverju sætti að Skipulagsstofnun tækist ekki að afgreiða málið  innan lögbundins tímafrests eru þau að mikið verkefnaálag og tímabundin mannekla séu ástæðan.  Sveitarfélaginu hefur verið tilkynnt um lengdan afgreiðslutíma í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga, segir í svari Skipulagsstofnunar.

Þá er bent á að „skipulagsgögn bárust ekki öll fyrr en í apríl, auk þess sem nýjar og endurteknar athugasemdir bárust sem fara þarf yfir. Tillögunni sjálfri var breytt lítillega.“

Eftir því sem Bæjarins besta kemst næst er búist við að Skipulagsstofnun afgreiði málið frá sér í næstu viku.

DEILA