Á afmæli Sjálfstæðisflokksins: Þá var Ólafur Thors reiður!

Bjarni Benediktsson varaformaður með formanni sínum Ólafi Thors.

Þorsteinn E. Jónsson, flugmaður, var nafnkunnur maður á sinni tíð. Hann lærði til flugs í Englandi á seinni stríðsárunum. Þjónaði sem orustuflugmaður í breska flughernum Royal Air Force. Var í fremstu víglínu nánast allan tímann. Þorsteinn gaf út endurminningar sínar í tveimur bindum sem hann skrifaði sjálfur, Dansað í háloftunum og Viðburðarík flugmannsævi.

Ingibjörg var blíð, glaðlynd og ástrík

Þorsteinn kvæntist Margréti, dóttur Ólafs Thors og Ingibjargar Indriðadóttur, árið 1952. Bar hann mikla virðingu fyrir tengdaforeldrum sínum. Segir hann að Ingibjörg hafi verið ákaflega blíð, glaðlynd og ástrík kona. Ómetanleg stoð og stytta eiginmanns síns. Stjórnaði heimili þeirra af mikilli röggsemi og myndarskap. Hafði lag á að verja mann sinn óþarfa ágangi. Um Ólaf segir hann að eitt af því sem gerði hann svo vinsælan meðal almennings, hvar í flokki sem menn annars voru, hafi verið léttlyndið og kímnigáfan. Auðvitað hafi verið freistandi að halda að Ólafur Thors hafi tamið sér slíka eiginleika til að afla sér vinsælda þegar hann kom fram opinberlega. Því hafi alls ekki verið þannig varið. Hann hafi einfaldlega verið að eðlisfari ákaflega skapgóður og lífsglaður maður. Og ráðvendni og heiðarleiki hafi verið eiginleikar sem hann átti í ríkum mæli.

Málverk af Jóni Sigurðssyni bak við skrifborðið

Þorsteinn segir frá því að tengdaforeldrarnir hafi haldið tvær miklar veizlur til heiðurs brúðhjónunum. Aðra heima hjá sér og hina í Golfskálanum í Öskjuhlíð sem þá var. Er nú rétt að vitna orðrétt í flugkappann þar sem hann segir frá heimilisháttum í Garðastræti 41. Og þegar honum varð á að gera húsbóndann reiðan.

„Að loknum hádegisverði í borðstofunni var venjulega sest uppi á „kontór“ þar sem kaffi var borið fram, og við hátíðleg tækifæri var jafnvel koníaksstaup handa þeim sem vildu. Skrifstofa Ólafs var á efri hæð hússins, í suðvesturhorni, og út um horngluggann var fagurt útsýni yfir Tjörnina og allt frá miðbænum suður á flugvöll. Á vesturvegg bak við skrifborð Ólafs var málverk af Jóni Sigurðssyni forseta og aðrir veggir voru að miklu leyti prýddir bókum og fjölskyldumyndum.
Eins og gerist og gengur var skeggrætt um ýmis mál, en sjaldan fékk Ólafur næði til að taka þátt í þeim samræðum – síminn sá um það. Ég varð undrandi yfir hvað hann sýndi mikið umburðarlyndi. Einu gilti hver hringdi, kerling norður á Melrakkasléttu eða skrifstofustjóri í einhverju ráðuneytinu, alltaf gaf hann sig heilshugar að því vandamáli sem var lagt fyrir hann.

 

Hvasst augnaráð í drykklanga stund

Það var við slíka kaffidrykkju, skömmu eftir brúðkaup okkar Möbbu, að mér varð alvarlega á í messunni. Aldrei þessu vant var Ólafur ekki upptekinn í símanum, og ég sagði við hann í glettni: „Líklega hefur það kostað þig góðan skilding allt það áfengi, sem drukkið var í brúðkaupinu og uppi í golfskála. Það er heppilegt að þú skulir vera ráðherra.“

Ólafur hallaði sér aftur á bak í stólnum og horfði á mig hvössu augnaráði drykklanga stund. Ég sá að hann var reiður. Loks rétt hann úr sér og sagði:

„Steini minn, ég hélt að þú þekktir mig betur. Heldur þú virkilega að ég myndi misnota aðstöðu mína á svona gróflegan hátt?“ Hann dró út skúffu á skrifborðinu og tók úr henni nokkur blöð sem hann skellti á borðið.

„Þetta eru greiðslukvittanir frá Áfengisverzlun ríkisins, og þú getur sjálfur séð að ég greiddi fullt verð fyrir allt það áfengi sem keypt var fyrir brúðkaupið.“

Hér þarf engu við að bæta.

H. S.

DEILA