Útvistarfólk í vanda um helgina

Um helgina var óvenjumikið um útköll Landsbjargarsveita til þess að bjarga útivistarfólki.

Á laugardaginn voru nokkrar björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu kallaðar út vegna göngumanns á Esju. Var sá að ganga hefðbundna leið á Þverfellshorn en kenndi sér meins og treysti sér ekki lengra. Þrír hópar björgunarmanna ásamt sjúkraflutningamönnum fóru á staðinn en viðkomandi var um hálfa leið upp á Þverfellshorn.  Var hlúð að viðkomandi og hann borinn í börum niður á bílastæði en þangað var komið um hálfeitt leytið.

Seinna  sama dag  voru björgunarsveitir á Suðurlandi kallaðar út vegna vélsleðaslyss á Heklu. Viðkomandi var staddur um 200 metra frá toppnum, veður ágætt og aðstæður því góðar af því leytinu. Þar sem mikill fjölda björgunartækja voru á sameiginlegri æfingu björgunarsveita á Austurlandi voru snjóbílar úr Reykjavík einnig kallaðar út. Einn var fluttur með þyrlu á sjúkrahús en björgunarsveitir hlúðu að öðrum.

Um miðjan dag á laugardaginn voru björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðurlandi kallaðar út vegna fólks sem bað um aðstoð ofan Reykjadals. Fólkið var á göngu að heita læknum þar en hélt áfram upp á Hellisheiðina en lendir í vandræðum í bröttu fjallendi efst í dalnum. Þrír hópar björgunarmanna voru sendir til fólksins. 

Loks voru á laugardaginn björgunarsveitir á Norðurlandi kallaðar út vegna vélsleðamanns sem slasaðist í Flateyjardal nú fyrir stuttu. Maðurinn var með björgunarsveitarfólki á ferð. hann var fluttur með þyrlu á sjúkrahús á Akureyri.

 

DEILA