Upprisa Vestfjarða og sumarkoma

Sumardagurinn fyrsti heilsar Vestfirðingum blíðlega sem aldrei fyrr. Sól á lofti, Vestfjarðalogn og suðræn hlýindi. Á svona degi gleymast allir hinir sumardagarnir fyrstu í nístandi kulda og snjófjúki sem gerðu það ekkert sérstaklega ánægjulegt að stika í þunnum sparifatnaði og fagna  því að framundan, í ekki of langri framtíð, væri betri tíð þar sem snjólínan myndi,  um sinn, hopa upp fyrir byggðina.

Sú von ein var þess virði að fagna sumrinu, því þrátt fyrir margar góðar vetrarstundir þá fer sumarið mildari höndum um okkur Vestfirðinga en veturinn. Við getum líka fagnað því að liðin vetur var ekki svo slæmur, snjóalög voru frekar með minna móti og veðurharkan ekkert til þess að gera mikið veður út af. Það besta við liðinn vetur var að hann var farsæll til sjávarins. Við vorum laus við mannskaða og alvarleg óhöpp. Það er mikið lán og nýleg  upprifjun á ofsaveðri í Djúpinu fyrir 50 árum með fáheyrðum mannskaða undirstrikar hversu ólíkur liðinn vetur var því hann getur verstur orðinn.

 

Það er ekki allt tilviljun. Gerð skipa og búnaður þeirra hefur tekið miklum framförum, veðurþjónusta og almannavarnir eru miklu fullkomnari og nákvæmari en þá var og að ekki sé minnst á björgunarsveitirnar. Tæki þeirra, búnaður, hæfni og ósérhlífni björgunarsveitarfólksins eru í fremstu röð og veita íbúum á hinum hrjóstruga, og einstaka sinnum harðbýla ,Vestfjarðakjálka öryggi sem líklega enginn annar í þjóðfélaginu, að ríkinu meðtöldu, getur gert.

Heimsendir

Svo má draga fram að kannski eru hlýindin bara ills viti og til marks um hinn ógnvænlega loftslagsvanda sem muni tortíma jörðinni eða að minnsta kosti gera lífið að helvíti á jörð.

Þetta er eiginlega of góður dagur til þess að sökkva sér ofan í heimsendagírinn. Það má til mótvægis benda á að síðustu hálfa öld hefur verið óvenjukalt, um þrjátíu ára skeið, svona frá 1960 til 1990, var hálfgerð ísöld. Á níunda áratugnum og eitthvað fram á þann tíunda  voru til dæmis vetrarveðrin oft ansi strembin hér í Bolungavík og norðarstormurinn stóð dögum saman í andlitið á manni svo maður náði ekki andanum nema snúa sér undan veðrinu. Sumrin voru stundum frekar sýnishorn af sumri, bæði köld og þurr. Svo það má alveg færa fyrir því rök að hlýrra veðurfar nú og betri veður séu frekar næri norminu og alls ekki nein merki um heimsenda handan við Djúpið.

En það er dáldið ríkt í okkur að sjá helvíti og hyldýpi við hvert fótmál og alveg sérstakleg ef vel gengur. Í mínu ungdæmi var á það bent að sumarið 1939 hefði verið það albesta í manna minnum og auðvitað fylgdi því heimsstyrjöldin síðari. Það er nefnilega hættulegt eða hefnir sín að búa við góða tíð. Annað dæmi sem oft var tiltekið var sumarið 1947. Það var líka alveg afbragð, hlýtt og sólríkt og ungdómurinn svartur af sól eftir sumarið. En viti menn Hekla fór að gjósa um haustið.  Og nú eru ýmsir ónefndir alveg á tauginni yfir því að veðrið er eitthvað skárra en það var á köldu árunum og þá stendur ekki á hrakspánni. Nú er það sjálfur heimsendir framundan. Það er líklega sá fimmtándi í mínu minni, á eftir kjarnorkuvánni, ósónlaginu, kommúnismanum og öllum hinum hættunum.

 

Upprisan

En þennan fallega sumardag er helst við hæfi að minna á að framundan er upprisa Vestfirðinga. Það hafa orðið vatnaskil í þróun mannfélagsins á Vestfjörðum. Undanhaldið hefur verið stöðvað og sóknin er hafin. Íbúum er farið að fjölga eftir þrjátíu ára afturför. Uppbygging nýrra atvinnuvega er grundvöllurinn að þessu. Tækifærin og krafturinn koma úr náttúrunni og hafinu. Þar liggja okkar tækifæri. Vestfirðingar hafa áttað sig á því að firðirnir gefa okkur nýtt líf. Fiskeldið er umhverfisvæn matvælaframleiðsla sem er að verða okkar stóriðja. Því er ekki að neita að mótlæti er við hvert fótmál, einkum frá þeim er annars staðar búa. En síðasta ár hefur sýnt Vestfirðingum að uppbyggingin er komin til að vera, sóknin er raunveruleg og verður ekki barin niður. Vestfirðingar hafa öðlast trú á uppbyggingu í fjórðungnum og vita að framtíðin hér getur verið jafngóð ef ekki betri en annars staðar á landinu.

Með þessa vissu að vopni munum við sækja fram á fleiri sviðum rétt okkar til nýtingar á öðrum gæðum til lands og sjávar til uppbyggingar í fjórðungnum. Vestfirðir verða ekki fámennur þjóðgarður höfuðborgarsvæðins heldur  öflug byggð í hverjum firði sem vex og dafnar á eigin forsendum, landi og þjóð til heilla.

Gleðlegt sumar.

Kristinn H. Gunnarsson

 

DEILA