Skíðavíkan á Ísafirði var sett formlega í gær kl 17 á Kaupfélagshorninu með ræðu Guðmundar Gunnarssonar, bæjarstjóra. Lúðrasveit Ísafjarðar fluttu nokkur lög. Næst stigu þeir félagar Karíus og Baktus á svið og að axarsköftum þeirra loknum stýrði Gylfi Ólafsson, forstjóri HVest sprettskíðagöngu.
Óvenjuhlýtt var í veðri og bar athöfnin nokkuð þess merki. Félagar í Skíðafélaginu höfðu veglegar veitingar til sölu og var töluverður fjöldi samankominn til þess að fagna því að skíðavikan væri hafin og framundan skemmtilegir dagar við Djúp.



