Samningar og samvinna

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

Stór skref voru stigin við undirskrift lífskjarasamninga í vikunni sem aðilar vinnumarkaðarins komu sér saman um með stuðningi stjórnvalda. Þetta er liður í breiðri sátt til áframhaldandi lífskjara til rúmlega þriggja ára. Þessi samningur er ný nálgun á þeirri staðreynd að lífkjör á vinnumarkaði kemur við alla þjóðina og því verða stjórnvöld að vera í sama takti svo vel takist. Aðkoma stjórnvalda að lífskjarasamningi felur í sér fjölmargar leiðir sem slær taktinn með aðildarfélögum vinnumarkarins til að viðhalda stöðuleika.

Fjölskyldan í fyrirrúmi

Framsóknarmenn hafa lengi barist fyrir lengingu fæðingaorlofs og loks sjáum við hilla undir þessu markmiði. Fæðingarorlof lengist úr níu mánuðum í tíu mánuði í byrjun árs 2020 og í byrjun árs 2021 verður fæðingarorlof 12 mánuðir. Áfram verður horft til þess að hvort foreldri fyrir sig eigi sjálfstæðan rétt til töku fæðingarorlofs en hluti orlofsins verði til skiptanna. Foreldar lenda í tómarúmi milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar og hefur það bæði skapað óvissu og tekjutap fyrir foreldra. Þarna er líka verið að svara ákalli sveitarfélaga sem hafa haft góðan vilja en stundum ekki getu til að brúa þetta bil. Á næsta ári eiga skerðingamörk barnabóta að hækka í 325 þúsund og eru þetta hvorutveggja ákvarðanir sem koma til með að nýtast fjölskyldufólki um allt land.

Húsnæðisliður út úr verðtryggingu

Framsóknarflokkurinn hefur haft það á stefnuskrá sinni að húsnæðisliðurinn verði tekinn út úr vísitölunni. Að því skal stefna í þeirri sátt sem undir var ritað. Þetta er í samræmi við niðurstöðu starfshóps um peningastefnu landsins þar sem segir að húsnæðisverð eigi ekki heima í verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands. Þetta ýtir undir stöðuleika á húsnæðismarkaði. Auk þess er komið inn á 13 úrræði í húsnæðismálum til stuðnings húsnæðisúrræða bæði fyrir kaupendur og leigjendur með sérstakri áherslu á fyrstu kaup. Úrræðið nær einnig til þeirra sem ekki hafa átt fasteign í fimm ár.

Sú sátt sem ritað var undir bar merki um vor á vinnumarkaði eftir kvíðvænlegan vetur sem einkenndist af óvissu og svartsýni. En það er öflugri forystusveit félaga á vinnumarkaði og framsýnni ríkisstjórn að þakka að vorið er komið víst á ný.

Halla Signý Kristjánsdóttir þingmaður framsóknarflokksins.

DEILA