Leikfélag Hólmavíkur sýnir um þessar mundir í Sævangi við Steingrímsfjörð gamanleikritið Nanna systir eftir Einar Kárason og Kjartan Ragnarsson. Leikstjóri er Skúli Gautason. Sögusvið Nönnu systur er samkomuhús úti á landi árið 1996. Þar stendur til að setja upp söngleik um Fjalla-Eyvind. Óvæntar heimsóknir og uppákomur setja þó strik í reikninginn, það gengur á ýmsu og útkoman er vægast sagt skrautleg. Leikarar eru 10, fimm karlar og fimm konur.
Skúli sagði í samtali við Bæjarins besta að þegar væru búnar þrjár sýningar og sú næsta verður á páskadag. „Sýningar hafa gengið vonum framar, fínar viðtökur og góð aðsókn. Sýningin er á sunnudag er sú síðasta í Sævangi. Leikfélag Hólmavíkur heldur eitt fárra leikfélaga á landinu í þá hefð að fara í leikferð. Verður verkið sýnt á næstunni í Skagafirði, Dölum, Snæfellsnesi, Borgarfirði og í Húnavatnssýslu“ sagði Skúli. Verða þá sýningarnar þá orðnar alls 9 talsins.