Jón Helgason minningarorð

Jón Helgason, fyrrv. forseti sameinaðs Alþingis og ráðherra.

MINNINGARORÐ

1. varaforseta Alþingis, Guðjóns Brjánssonar,

á þingfundi mánudaginn 8. apríl 2019,

um Jón Helgason, fyrrverandi forseta sameinaðs Alþingis.

Jón Helgason, fyrrverandi forseti sameinaðs Alþingis, lést að kvöldi þriðjudagsins 2. apríl sl. á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri, 87 ára að aldri.

                Jón Helgason var fæddur í Seglbúðum í Landbroti 4. október 1931. Foreldrar hans voru hjónin þar, Helgi Jónsson bóndi og Gyðríður Pálsdóttir húsfreyja.

Jón ólst upp í Seglbúðum við sveitastörf og bjó þar nær alla ævi. Hann var námsmaður góður, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1950, en ekki varð af frekara skólanámi. Eftir óvænt andlát föður hans hvarf hann til heimahaga, stóð fyrir sauðfjárræktarbúi móður sinnar í Seglbúðum og varð bóndi þar 1959. Hann fékkst auk þess við kennslu í sveitinni á árunum 1966–1970.

Jón hóf ungur að árum afskipti af stjórnmálum, skipaði sér þá í raðir framsóknarmanna, starfaði í félögum þeirra á heimaslóðum og varð síðar einn af forustumönnum kaupfélagsins þar. Hann var kosinn í hreppsnefnd 1966 og sat þar í 20 ár, þar af oddviti í 10 ár. Hann var valinn í forustusveit samtaka bænda á landsvísu, sat á búnaðarþingi, á fundum Stéttarsambands bænda, átti sæti í framleiðsluráði og stjórn stofnlánadeildar. Hann var formaður Búnaðarfélags Íslands 1991-1995.

Jón Helgason tók fyrst sæti á Alþingi sem varaþingmaður í mars 1972 en var síðan kjörinn alþingismaður í kosningunum 1974 og sat samfellt á þingi í rúm 20 ár, eða til ársins 1995, samtals á 25 löggjafarþingum. Sem þingmaður beitti Jón sér mest í landbúnaðarmálum og hagsmunamálum landsbyggðarinnar. Bindindismál voru honum einnig mjög hugleikinn og lét hann að sér kveða í þeim efnum bæði á Alþingi og utan þess. Hann sinnti líka nokkuð alþjóðastarfi á vegum þingsins.

Á óvissutíma og í miklu umróti í stjórnmálum eftir kosningarnar í desember 1979 var Jón Helgason kjörinn forseti sameinaðs þings áður en meiri hluti var myndaður í þinginu og sat í því sæti fram til 1983 er hann varð ráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, hinni fyrstu. Hann fór með landbúnaðarmál og dóms- og kirkjumál, og síðan með landbúnaðarmál í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar 1987-1988. Þá vék hann úr ráðherrastóli og var kjörinn forseti efri deildar og gegndi því embætti til 1991. Auk þess var hann nokkrum sinnum varaforseti.

Eftir að þingsetu lauk árið 1995 tók Jón allmikinn þátt í starfi þjóðkirkjunnar, varð fyrsti forseti kirkjuþings eftir að þjóðkirkjulög voru samþykkt 1997 og mótaði störf þingsins fyrstu ár þess af festu og öryggi hins þingreynda manns. Hann lét af því starfi 2006 og dró sig þá í hlé frá störfum á opinberum vettvangi.

Allir þeir sem kynntust Jóni Helgasyni báru til hans traust fyrir reglusemi og samviskusemi, dugnað og hæfni, einstaka lipurð og háttprýði. Hann var sérlega glöggur við störf sín og þægilegur í samstarfi. Eigi að síður gat hann verið fastur fyrir og fylginn sér þótt ljúfur væri.

Það varð hlutskipti Jóns Helgasonar að gegna háum og mikilvægum embættum í höfuðstaðnum, en best undi hans sér þó við bústörfin heima í Seglbúðum með sínu fólki.

Ég bið þingheim að minnast Jóns Helgasonar, fyrrverandi forseta Alþingis, með því að rísa úr sætum.

DEILA