Ísafjarðarbær gerir samning við fyrrverandi bæjarstjóra um úttekt

Haraldur L. Haraldsson. Mynd: Eyjan.dv.is

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur gert samning  við Harald L. Haraldsson, fyrrverandi bæjarstjóra á Ísafirði og síðar bæjarstjóri í Hafnarfirði um ítarlega úttekt á stjórnsýslu, rekstri og fjármálum Ísafjarðarbæjar. Er það í framhaldi af ákvörðun bæjarráðs frá 19. nóvember 2018.

Kostnaðurinn er 7 milljónir króna að því er fram kemur í minnisblaði Guðmundar Gunnarssonar, bæjarstjóra til bæjarráðs.

Verkefnalýsingin er eftirfarandi:

„Í verkefninu felst að gerð verður ítarleg úttekt á stjórnsýslu, rekstri, og fjármálum
sveitarfélagsins ásamt því að gera tillögur til úrbóta. Í tillögunum verður horft til næstu 3-5
ára eftir því sem við á.
Úttektin byggir meðal annars á viðtölum við alla forstöðumenn stofnana og sviða, ásamt því að gera samanburð við rekstur annarra sveitafélaga. Niðurstaða úttektarinnar verður sett fram í skýrslu sem skiptist í tvo megin kafla, greiningu á stjórnsýslu, rekstri og fjármálum annars vegar og tillögum til úrbóta hins vegar.
Í greiningunni verður íbúaþróunin skoðuð, greining á skuldum, veltu- og handbæru fé frá
rekstri. Skoðað hvernig ársreikningur kemur út í samanburði við fjárhagsáætlun. Greining á
rekstrarafkomu, launum og öðrum rekstrarútgjöldum. Ítarleg greining á tekjum
sveitarfélagsins, samsetning þeirra o.s.frv. Þróun fjölda stöðugilda síðustu ár og þau borin
saman við hjá öðrum sambærilegum sveitarfélögum að stærð. Gerð greining á hverri deild
fyrir sig og hverri stofnun. Að lokum tillögur til úrbóta.“

DEILA