Vestfirska vísnahornið hefur verið haldið úti frá september 2014 og hefur birst í blaðinu Vestfirðir. Til gamans og fróðleiks verða hér af og til birtir eldri vísanþættir. Hér kemur einn frá janúar 2018, sem birtist í 2. tölublaði.
Umsjónarmaður leitaði til Ólu Friðmeyjar Kjartansdóttur, bónda að Þórustöðum í Bitrufirði eftir vísnaefni og fékk um hæl þetta snaggaralega svar:
Eigi get ég orðið við,
óskum þínum halur.
Er hér skortur, einhver bið,
auður vísna malur.
Þorrablót Súgfirðingafélagsins var haldið fyrir skömmu og tókst afbragðsvel eins og víst var að myndi verða. Einn veislugesta var Sveinbjörn Jónsson, fjölhagur athafnamaður og Súgfirðingur. Hann setti nýlega þetta ljóð á vegginn sinn:
Ó þessi bær með bárujárn á þökum,
barnahróp sem heyrast undur skær,
hlíðarmynd sem hlær við áratökum
og hlykkjast eins og lindin kristal-tær
hvar hanar gala hátt og snjallt “á fætur!”
og hundar gelta daginn út og inn
ó þessi bær er minningunum mætur
meitlaður svo undur fast í huga minn.
Vér þorparar og þjáninganna bræður
sem þorpið ól við djarfan leik og störf
systur vorar syngjandi og mæður
nú sannleikanum vitni berum djörf
: þó mörgum finnist annað meira virði
en malirnar við fagran, lítinn fjörð
er Suðureyri Súganda- í -firði
sælureitur minnar æsku hér á jörð.:
Annar góður Vestur Ísfirðingur er Guðmundur Hagalín frá Hrauni á Ingjaldssandi. Gefum honum orðið einn góðviðrisdag eftir áramótin:
Ég hef nær allan minn starfsaldur starfað, tekið þátt í og borið ábyrgð á orkuframleiðslu á Íslandi. Snjór eru auðæfi okkar Íslendinga. Horfði yfir landið.
Horfi yfir hjarann
hlýnar sálin öll.
Svífur yfir skarann
silkiborin mjöll.
Er nú landið aftur
eins og vera ber.
Seinna kuldans kraftur
kyndir hús hjá þér.
Þá víkur sögunni inn í Skjaldfannardal í Ísafjarðardjúpi. Þar býr Indriði Aðalsteinsson og fylgist með þjóðmálunum:
Gamanblaðið Spegillinn samviska þjóðarinnar, sem ég ólst upp við hafði hvassa penna á sínum snærum sem kölluðu hlutina réttum nöfnum og „sjálftaka“ var ekki í þeirra orðaforða heldur þjófnaður, rán og að stela. Stærstu flokkur þjóðarinnar sem þá hafði venjulega um 40% kjósenda á bak við sig var þar alltaf kallaður Sjálfgræðisflokkurinn og fylgisfólk hans sjálfgræðismenn.
Sjálfgræðisþingmaðurinn Ásmundur Friðriksson, áður meðlimur í hrekkjalómafélaginu í Vestmannayjum er ekki hættur þeirri iðju sinni, þó hann sé fluttur frá Eyjum. Hann verðskuldar því fyllilega athygli hagyrðinga og vonandi þarfnast eftirfarandi vísur ekki skýringa:
Illt er nú á Ása stand
upp hefur dregið bliku.
Ekur hring um Ísa land
einu sinni í viku.
Hjá Ásmundi er ógnarstand
áfram þenur bílagand.
Rasískískan brýnir brand
brunandi um Suðurland.
Ási hræðist ekki neitt
er hans víða gróði.
Stelur bara út í eitt
úr okkar ríkissjóði.
Eftir þetta ökuljóð er rétt að slá botninn í vísnaþáttinn að þessu sinni. Lesendum eru sendar góðar óskir um batnandi veðurfar með hækkandi sól.
Í góubyrjun
Kristinn H. Gunnarsson