Samninganefnd Starfsgreinasambandsins sendi frá sér í gær fréttatilkynningu þar sem fram kemur að Starfsgreinasamband Íslands hafi ákveðið að slíta kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins eftir árangurslausan fund hjá ríkissáttasemjara. „Síðastliðinn föstudag samþykkti viðræðunefnd Starfsgreinasambandsins einróma að ef ekki kæmu fram nýjar hugmyndir eða viðbrögð frá Samtökum atvinnulífsins um helgina hefði viðræðunefnd sambandsins fulla heimild til þess að slíta kjaraviðræðum. Engar nýjar hugmyndir eða tillögur hafa komið fram frá Samtökum atvinnurekenda. Því hefur viðræðunefnd Starfsgreinasambandsins slitið kjaraviðræðum og mun í kjölfarið sækja heimild til aðgerða frá félagsmönnum.“ segir í fréttatilkynningunni.
Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga sagði í samtali við Bæjarins besta að hugmyndir atvinnrekenda um breytingar á yfirvinnukaupi til lækkunar hefðu komið einna verst við félagsmenn Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Um 30% félagsmönnunum myndu verða fyrir skerðingu á launum sínum vegna þessara hugmynda, einkum hlutavinnustarfsfók svo sem yngri félagsmenn og svo fullorðnir sem væru að sækja sér aukavinnu.
Finnbogi sagði samninganefndarmenn hefðu verið búnir að teygja sig langt til þess að ná samningi og komið hefði verið niðurstaða í nýja launatöflu sem væri verðmæt fyrir sína félagsmenn. En hugmyndirnar um breytingar á yfirvinnukaupinu hefðu sett málið út af sporinu. Ákvörðun um slitin hefðu verið tekin að vandlega yfirveguðu máli eftir þriggja vikna stífa viðræðulotu.
„Við berum ábyrgð á því að koma í veg fyrir meiri skaða vegna viðræðuslitanna en orðið er“ sagði Finnbogi. En nú förum við að huga að aðgerðum. „Aðgerahópur SGS hittist á morgun og ekki er ólíklegt að horft verði til aðgerða Eflingar“. Samninganefnd Starfsgreinasambandsins mun koma saman eftir viku og þá gæti verið samþykkt að boða til verkfalla. Komi til þess mun verða allsherjaratkvæðagreiðsla í hverju félagi um verkfall, sagði Finnbogi Sveinbjörnsson að lokum.