Veftímaritið Úr Vör hóf göngu sín í gær. Það er hlutafélag og eru allmargir hluthafar í því, einkum frá sunnanverðum Vestfjörðum. Ritstjóri er Aron Ingi Guðmundsson, Patreksfirði. Hann hefur starfað sem blaðamaður hjá frétta-, menningar- og listamiðlum. Julia Gasiglia er grafísk- og vefhönnuður. Ritstjórn blaðsins er skipuð fjórum, þeim Arnari Sigurðssyni, Arnhildi Lilý Karlsdóttur, Dagrúnu Ósk Jónsdóttur og Svanhvíti Sjöfn Skjaldardóttur.
Í kynningu á vefsíðunni segir að:
„ÚR VÖR er vefrit sem fjallar um hvernig fólk á landsbyggðinni notar skapandi aðferðir til að leita lausna. Lífið er ekki bara saltfiskur og viljum við varpa ljósi á allt hið frábæra sem fram fer á landsbyggðinni varðandi nýsköpun, list, menningu og frumkvöðlastarf, í hvaða formi sem er, og með því, veita fólki innblástur.“
Veftímaritið mun birta reglulega efni sem tengist málaflokkum vefritsins auk þess sem lausapennar og aðrir senda af og til inn fróðlega pistla.