Umhverfis- og öryggismál í sjókvíaeldi

Ráðstefnan „Strandbúnaður“ verður haldin á Grand Hótel Reykjavík dagana 21 – 22 mars n.k. Strandbúnaður vísar til „landbúnaður“ og er vettvangur aðila sem tengjast eldi og ræktun lífvera í sjó og ferskvatni. Á ráðstefnunni verða erindi og kynningar á því helsta sem er að gerast í þessari grein og reynt að varpa ljósi á þróun til framtíðar.

Á málstofunni “Umhverfis- og öryggismál í sjókvíaeldi“ verður fjallað um áskoranir í sjókvíaeldi, bæði umhverfi og rekstri. Aðstæður í íslenskum fjörðum bjóða upp á marga kosti frá náttúrunnar hendi til að stunda eldi af ýmsu tagi – ekki síst laxeldi. Íslenskir firðir eru hreinir og skjólgóðir en ekki síst er þekking Íslendinga í sjávarútveg lykilatriði í að skapa aðstæður sem tengja saman náttúrulegar aðstæður til eldis og aðgang að mannauði. Íslensk veðrátta og kaldur sjór eru þó atriði sem taka þarf tillit til í rekstri eldis við Íslandsstrendur. Umhverfisáhrif eins og möguleg erfðablöndun við villta laxastofna í íslenskum ám hafa einnig verið í brennidepli.

Hætta á erfðablöndun vegna tapaðra eldislaxa úr sjókvíum hefur fengið einna mesta athygli og hafa veiðiréttarhafar laxveiðiáa barist gegn leyfum til laxeldis í sjókvíum við Ísland. Þrátt fyrir samþykkta reglugerð um að draga línu og takmarka sjókvíaeldi á laxi við svæði á stærstum hluta strandlengju Íslands, til að koma til móts við kröfur veiðiréttarhafa, hefur hún ekki dugað til að skapa sátt um uppbyggingu laxeldis.

Íslensk veðrátta getur verið hörð og gerir fiskeldi og aðra ræktun í sjó áhættusama. Ekki þarf að fara langt aftur í tímann til að sjá það, um og eftir miðja síðustu öld komu kuldakaflar þar sem hitastig og vindur sköpuðu aðstæður sem eru mjög hættulegar fyrir lax í sjókvíum. Þessu fylgdi jafnframt lagnaðar- og rekís sem getur valdið tjóni á eldisbúnaði í sjó. Fjallað verður um þessi mál á ráðstefnunni og reynt að meta áhættur og hugsanleg viðbrögð.

Sjávarhiti við Ísland er lægri en hjá öllum öðrum framleiðendum á eldislaxi. Það hefur bæði kosti og galla. Kostirnir eru að gæði íslensks lax þykja framúrskarandi og laxalús á erfiðara uppdráttar. Lágur sjávarhiti leiðir til hægari vaxtar og gerir framleiðslustýringu að ögrandi verkefni. Lágur sjávarhiti hefur áhrif á fóðurtöku og fóðrun við slíkar aðstæður verður vandasöm. Hugsanlega má bregðast við sveiflukenndum eldisaðstæðum með mismunandi útsetningastærð seiða og aðlögun fóðrunar og fóðursamsetningar samkvæmt því.

Skjól er í fjörðum Íslands. Við Færeyjar er laxeldi stundað við opnara haf og ölduhæð við eyjarnar meiri en við núverandi eldisaðstæður hérlendis. Mikilvægt er að fylgja þeim kröfum sem gerðar eru til sjókvíaeldisbúnaðar og að farið sé eftir lögum um fiskeldi með vísan í búnaðarstaðal, staðarúttektir og úttektir á festingum og frágangi. Þannig er tryggt að búnaður standist ýtrustu kröfur og dregið úr áhættu á slysasleppingum og efnahagslegu tjóni. Á ráðstefnunni verður kynning á þessum málum og hvernig eftirliti og viðbrögðum er háttað.

Það sem skiptir mestu máli í öllu þessu er að hagsmunir náttúrunnar og rekstraraðila fara iðulega saman. Það er hagur rekstraraðila að lágmarka líkur á því að lax sleppi úr sjókvíum og velferð fisksins ræður miklu um rekstrarafkomuna.

Eilíf áskorun er að takast á við umhverfisskilyrði við Dumbshaf, nýta kostina en bregðast við ógninni sem því fylgir. Takist það má búast við miklum tekjum af sjókvíaeldi, auknum útflutningi og verðmætasköpun landsmönnum til hagsbóta. Í hinum dreifðu byggðum getur starfsemi eins og sjókvíaeldi skipt gríðarlega miklu máli til að byggja upp efnahag og byggðafestu.

Gunnar Þórðarson, Matís

DEILA