Tónleikar Karlakórsins Ernis fóru fram í Félagsheimili Bolungarvíkur í gær.
Tónleikarnir voru vel sóttir en venja er að Ernir sé með vortónleika og vorboðinn ljúfi því óvenju snemma á ferðinni í ár og tónleikagestum var auðvitað óskað gleðilegs sumars í söngskránni. Kórinn er að fara í ferðalag til Skotlands í apríl og eru tónleikarnir liður í undirbúningi fyrir það.
Á efnisskrá voru bæði gamlar perlur og nýir slagarar og voru tónleikagestir ánægðir með frammistöðu kórsins og píanóleikarans Péturs Ernis Svavarssonar og stjórnandans Beáta Joó.
Þá buðu kórfélagar upp á tvöfaldan kvartett sem söng Sofðu unga ástin mín án undirleiks undir stjórn Péturs Ernis og var það tvímælanlaust hápunktur tónleikanna.
Einsöngvarar með kórnum voru Ómar Sigurðsson og Pétur Ernir Svavarsson og á bassatrommu lék Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir.