Strandakjarninn er samstarfsverkefni um það verkefni að búa til kjarna undir sama þaki á Hólmavík segir Viktoría Rán Ólafsdóttir, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Steingrímsfjarðar Hólmavík. Þangað yrði sótt þjónusta og félagsskapur. Viktoría vísar til svipaðra verkefna í Noregi þar sem stjórnvöld hafa styrkt með fjárframlögum kjarna af þessu tagi, einkum til þess að efla verslun í dreifbýli. Þá standa mörg fyrirtæki saman að því að koma upp kjarnahúsnæðinu undir starfsemi sína og leitast við að bæta þjónustuna fyrir íbúa svæðisins.
Kaupfélagið hefur haft frumkvæði í þessu máli og fékk nýverið 3,3 milljóna króna styrk frá Byggðastofnun til þess að gera þarfa- og kostnaðargreiningu fyrir þjónustukjarna. Þar sé markmiðið einkum að koma í veg fyrir að verslun leggist af, auka samkeppnishæfni, skapa atvinnu og bæta búsetuskilyrði.
Viktoría sagði að málið væri skammt á veg komið. Það hefði verið kynnt fyrir sveitarstjórn sem hefur samþykkt að taka þátt í þarfagreiningu og mótun verkefnisins. Þegar hefur komið í ljós, að margir aðilar hafa áhuga á verkefninu. Mikilvægt er að samstarfshópurinn nái utan um sameiginlega framtíðarsýn og tilgang verkefnisins.
Bendir Viktoría á að ýmsa kjarnastarfsemi svæðisins skortir nú stærra eða hentugra húsnæði, s.s. Strandabyggð, Sparisjóður Strandamanna, ÁTVR-Vínbúðin, Festi (N1 og Krónan), „Sýslumaðurinn á Vestfjörðum o.fl. KSH er að stilla upp samstarfsverkefni með ofangreindum aðilum til að bæta aðgengi og þjónustu fyrir ört fjölgandi vegfarendur sem og heimamenn. Sameiginleg sýn þessara aðila er að með samþættingu og samstarfi ýmissa fyrirtækja og opinberra þjónustustofnana undir einu þaki verði hægt að styrkja innviðina og veita íbúum betri þjónustu í notalegu umhverfi sem um leið auki á félagsleg samskipti íbúa og annarra viðskiptavina.“
„Ávinningur sem hlýst af stofnun Strandakjarna er margþættur. Rekstur KSH hefur reynst afar erfiður undanfarin ár vegna smæðar markaðarins, samkeppni við stærri aðila á markaði og aukinn rekstrarkostnaður. Með samþættingu þjónustu við aðra þjónustuaðila er skotið fleiri stoðum undir starfsemina og þess vænst að samlegðaráhrifin styrki rekstrargrundvöll fyrirtækisins. Um leið og sveitarfélagið hefur mikinn metnað til að veita íbúum og gestum sem heimsækja svæðið fyrirmyndar þjónustu reynist það þungbært í fámennu en dreifðu byggðalagi. Samlegðaráhrifin eru því ekki síðri fyrir sveitarfélagið en aðra sem verða með starfsemi í Strandakjarna. Ávinningurinn fyrir íbúa svæðisins og aðra viðskiptavini eru augljós vegna þæginda við að geta sótt sér þjónustu á einn stað og auka um leið félagsleg tengsl og vellíðan.“
Að lokum sagði Viktoría Rán Ólafsdóttir að markmiðið væri einnig að gera þjónustukjarnann að heildstæðum áningarstað fyrir Strandir og að virkja og þjálfa starfsfólk til að samflétta og fjölga upplifunum í tengslum við verslun og þjónustu og taka virkan þátt í að kynna framleiðslu sína og þjónustu samhliða sögu og menningu svæðisins.