Ráðstefnan Strandbúnaður 2019 fór fram í Reykjavík á fimmtudag og föstudag. Strandbúnaður er samheiti yfir atvinnugreinar sem tengjast nýtingu land- og sjávargæða í og við strandlengju landsins, bæði ræktun og eldi.
Flutt voru um 60 erindi og ræktun, eldi, tækni og markaðsmál svo nokkuð sé nefnt. Vestfirðingar voru mjög áberandi með um 13 erindi og var athyglisvert hvað þessi fámenni landshluti kemur að mörgum þáttum í Strandbúnaðinum.
Meðal þess sem tekið var fyrir var skeldýrarækt. Kærklingarækt er stunduð á Vestfjörðum, bæði við Húnaflóa og í Breiðafirði.
Óskar Torfason, framkvæmdastjóri Fiskvinnslunnar Drangs ehf á Drangsnesi flutti erindi um kræklingaræktina sem fyrirtækið hóf árið 2007 í Steingrímsfirði. Utan um kræklingaræktina var stofnað fyrirtækið Strandaskel ehf og ST-2 ehf er annað fyrirtæki um bátana sem notaðir eru við ræktina. Sett eru út reipi og sest kræklingurinn á þau og með tímanum safnast mikið magn af skel sem svo vex þar. Það tekur um þrjú ár þar til skelin er orðin það stór að hún er tekin og unnin til útflutnings, einkum til Póllands, þar sem hún er unnin frekar. Skelvinnslan hófst 2011.
Í þessari atvinnugrein eins og öðrum eru vandamál sem þarf að yfirstíga. Ef línan sem reipin hanga í er of neðarlega og reipin ná í botninn er það krossfiskurinn sem sér sín tækifæri í átuleit og ef línan er of ofarlega er það æðarfuglinn sem er skæður afræningi.
Kræklingaræktin er möguleg og það er hægt að hafa tekjur af henni en fram kom í erindi sem Jón örn Pálsson, Tálknafirði flutti um virðiskeðjuna í kræklingnum að hlutur framleiðandans á Drangsnesi eru um 20% af smásöluverðinu á markaði erlendis.
Athyglisvert er að Íslendingar virðast ekki borða krækling í neinum mæli og sala á markað innanlands er lítill hluti framleiðslunnar.