Jöfnunarsjóður sveitarfélaga: áberandi mest skerðing á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra

Fyrirhuguð frysting á framlögum ríkissjóðs í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á árunum 2020 og 2021 mun verða samtals 3.285 milljónir króna samkvæmt minnisblaði Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 18. mars 2019. Á næsta ári yrði skerðingin 1.179 milljón krónur og 2.106 milljónir krónur árið 2021. Á þessu ári er framlagið 20.597 milljónir króna. Framlögin skiptast í útgjaldajöfnunarframlög, fasteiganskattsjöfnun og framlög vegna málefna fatlaðra.

Forsendur þessa útreiknings er að skatttekjur og útsvar hækki í takt við spár fjármála- og efnahagsráðuneytis um þróun þessa skatta.  Niðurstöður útreikninga sambandsins og starfsmanna jöfnunarsjóðs eru svipaðar.

Hundrað sinnum meiri skerðing á Vestfjörðum miðað við íbúa

Í minnisblaðinu eru reiknuð út áhrifin af frystingunni eftir sveitarfélögum og segir í því að áberandi mest tekjutap verði hjá sveitarfélögum á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Á Vestfjörðum verður skerðingin á þessum tveimur árum samtals 258,7 milljónir króna. Framlög Jöfnunarsjóðsins á þessu ári verða 1.563 milljónir króna.

Í bókun bæjarráðs Bolungavíkur frá því í morgun er vakin athygli á því að fyrirhuguð skerðing leggist afar misjafnt á sveitarfélög um landið og „ljóst er að íbúar á Vestfjörðum munu bera hlutfallslega mestu skerðinguna. Þannig skerðast fjárframlög Jöfnunarsjóðs hundrað sinnum meira á Vestfjörðum en á höfuðborgarsvæðinu.“

Bæjarráð Bolungavíkur harmar hugmyndir um skerðinguna

Bæjarráð Bolungavíkur samþykkti eftirfarandi bókun á fundi sínum í morgun:

„Bolungarvíkur harmar hugmyndir stjórnvalda um skerðingu á framlögum ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eins og fram kemur í minnisblaði Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 18.mars sl.

Þær hugmyndir sem fram eru komnar eru til þess fallnar að skerða þjónustu við íbúa í Bolungarvík og á Vestfjörðum öllum. Tillögurnar leggjast afar illa á fámenn sveitarfélög sem reiða sig á framlög Jöfnunarsjóðs til að jafna að hluta þann gríðarlega aðstöðumun sem er milli sveitarfélaga á Vestfjörðum og t.d. á höfuðborgarsvæðinu.

Fram kemur í minnisblaðinu að fyrirhuguð skerðing leggist afar misjafnt á sveitarfélög um landið og ljóst er að íbúar á Vestfjörðum munu bera hlutfallslega mestu skerðinguna. Þannig skerðast fjárframlög Jöfnunarsjóðs hundrað sinnum meira á Vestfjörðum en á höfuðborgarsvæðinu.

Heimild: Minnisblað Sambands íslenskra sveitarfélaga, Málsnr.: 1901041SA

Bæjarráð Bolungarvíkur mótmælir þessum fyrirhuguðu hugmyndum um skerðingu tekna til Jöfnunarsjóðs harðlega og beinir því til stjórnvalda að leita annarra leiða til að ná jafnvægi í ríkisfjármálum.

Sveitarfélög á Vestfjörðum skorast ekki undan þeirri ábyrgð sem felst í ábyrgum rekstri sveitarfélaga eða þátttöku í kostnaði við að þjónusta íbúa þessa lands. En þær hugmyndir sem fram eru komnar um fyrirhugaða skerðingu eru úr öllum takti við sanngjarna úthlutun fjármuna úr sameiginlegum sjóðum. Það geta varla verið hugmyndir ríkisins að íbúar á Vestfjörðum taki á sig hundrað sinnum meiri skerðingu en önnur sveitarfélög.

Ef ríkisvaldið hefur raunverulega áhyggjur af horfum í efnahagsmálum þá er lausnin bæði einföld og fyrirsjáanleg. Á Vestfjörðum og Austfjörðum hefur verið unnið að atvinnuuppbyggingu sem er fyllilega tilbúin til að fylla í gatið sem komandi niðursveifla í íslensku efnahagslífi mun skilja eftir sig. Atvinnuuppbygging sem mun í fyllingu tímans taka fram úr íslenskum sjávarútvegi að stærð og umfangi. Atvinnuuppbygging sem er að fullu verður fjármögnuð án aðkomu ríkisins á nokkurn hátt. Atvinnuuppbygging sem mun að stærstum hluta byggja upp atvinnu og umsvif fjarri höfuðborgarsvæðinu. Atvinnuuppbygging sem mun greiða sérstakt auðlindagjald til samfélagsins.

Ef Ísland vill fá meira frá Vestfjörðum, þá stendur aukið fiskeldi til boða.“

 

 

 

DEILA