Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm. segir að Norðmenn hafi það á stefnuskránni að nærri fimmfalda eldið við strendur sínar enda mikil eftirspurn eftir framleiðslunni í heiminum. Halla Signý er þessa dagana í kynningarferð Atvinnuveganefndar Alþingis í Noregi. Árleg framleiðsla Norðmanna, sem einkum er eldislax er nærri 1,5 milljón tonna svo þeir stefna að gríðarlegri framleiðsluaukningu.
„Það er mikilvægt að horfa til Noregs þegar við erum að móta stefnu um fiskeldið til framtíðar á Íslandi. Þeir hafa áratuga reynslu og hefur tekist með góðum árangri að vinna á ýmsum úrlausnarmálum. Bæði umhverfismálum og eins með mótvægisaðgerðum til að vernda villta laxinn. Það er óþarfi hjá okkur að finna upp hjólið aftur“ segir Halla Signý. Hún bætir því við að það skipti máli að ná sátt um þessa nýju atvinnugrein sem verði milli framleiðslufyrirtækjanna og samfélagana og eins við veiðiréttarhafa. „Þannig hámörkum við ábatann fyrir heildina“ segir Halla Signý Kristjánsdóttir.
Þegar Bæjarins náði tali af Höllu Signýju var hún stödd í Björgvin ( Bergen) og fór nefndin í dag á sjávarútvegssýning NASF sem stendur þar yfir. Auk þess heimsækir atvnnuveganefnd norsku Fiskistofuna og Hafrannsóknarstofuna (Havforskiningsinstrituttet) og mun fá kynningu á hlutverki stofnunarinnar í rannsóknum á fiskeldi.
Halla Signý segir að farið verður í NARCE (Norwegian Research Centre AS í Bergen) sem er ein stærstu rannsóknarstofnun í Noregi. „Þar fáum við kynningu hvernig þeir hafa vaktað villtan lax í 50 ár. Norska umhverfisverndarsamtökin Norges Miljövernforbund verður líka heimsótt og fáum fyrirlestur frá öðrum umhverfissamtökum líka.“