Fasta fyrir umhverfið

sr. Magnús Erlingsson.

Að temja holdið

Fastan hefst á öskudegi.  Og hún stendur í 40 daga eða allt fram að páskum.  Fastan er eins og aðventan undirbúningstími fyrir eina af aðalhátíðum kirkjuársins.  Litur föstunnar er fjólublár, sem er litur íhugunar og iðrunar.

Enda þótt fastan hafi haft hjá kirkjunni tiltekna trúarlega merkingu þá átti fastan sér líka ákveðinn praktískan tilgang.  Fólk var hvatt til að aga sjálft sig með því að fasta, með því að neita sér um eitthvað.  Þannig átti fastan að auka sjálfsstjórn og hjálpa fólki að ná tökum á girndum sínum og löngunum.  Í katólskum löndum var fólk hvatt til þess á föstunni að neita sér um kjöt.  Sjálfsagt þjónaði þessi siður líka þeim tilgangi að spara kjötið þar til vorið kæmi með sínu nýmeti.  Við Íslendingar nutum góðs af þessum sið því hann bjó til markað í Evrópu fyrir íslenskan saltfisk.

Nútímamaðurinn hefur einnig gott af því að fasta þó ekki væri nema fyrir það eitt að flest lifum við í vellystingum og hefðum því gott af því að temja okkur aukna hófsemi.  Það er gott að aga líkamann og gera holdið undirgefið andanum.  Í raun er það þetta, sem íþróttamenn gera þegar þeir stæla líkamann með þrotlausum æfingum og sérstöku matarræði.  Flest okkar hefðum meira en gott af því að neita okkur um sælgæti, vín og annan munað og óþarfa, sem við notum til að gleðja okkur, – og sum okkar jafnvel til að hugga okkur, samanber danska orðið tröstespis.

Breyttur lífsstíll

Innan íslensku þjóðkirkjunnar hefur hópur áhugafólks hrundið af stað nýrri tegund af föstu.  Átak þetta er nefnd Fasta fyrri umhverfið.  Markmið þessa átaks er að fá fólk til umhugsunar um náttúruvernd og hvernig við getum unnið gegn mengun og auknum gróðurhúsaáhrifum.  Á fasbókarsíðu Ísafjarðarkirkju birtast núna alla föstuna skilti með áróðri fyrir breyttum lífsstíl og náttúruvernd.

Margt fólk, sérstaklega í stórum borgum eins og Reykjavík, heldur að náttúruvernd gangi út á það að vernda tiltekin landssvæði fyrir vegalagningu og gera önnur landssvæði að þjóðgörðum.  En slík verndun hefur nær engin áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda.  Hún býr hins vegar til ósnortin landssvæði, sem yndislegt getur verið að ganga um.

Raunveruleg náttúruvernd og barátta gegn auknum gróðurhúsaáhrifum fer fram í borgunum sjálfum.  Því það sem ógnar lífríkinu er lífsstíll nútímamannsins.  Bruni á jarðefnaeldsneyti býr til koltvísýring, sem fer beint út i andrúmsloftið.  Farþegaflugvél eins og Boeing 757 eyðir 15 tonnum af eldsneyti þegar hún flýgur með okkur í sólina á Spáni.  Flestar bifreiðar brenna einnig jarðefnaeldsneyti.  Fólk, sem býr í stórum borgum eins og Reykjavík, sem er skipulögð líkt og amerísk bílaborg, þarf að aka miklu meira heldur en fólk, sem býr úti á landi.  Reykjavík er í raun dreifbýli því það er útilokað að ganga á sjúkrahúsið og koma svo við í bakaleiðinni í bankanum og stórmarðaðinum áður en maður skreppur niður á höfn og kaupir sér ýsu í soðið.  Í landsbyggðarbæjum eins og Ísafirði er hins vegar hægt að fara fótgangandi og koma við á öllum þessum stöðum á einungis tveimur klukkustundum.  Þess vegna er Ísafjörður þéttbýli samanborið við gysbýlið Reykjavík.

Og já, það er full ástæða til að spara rauða kjötið.  Nautgripir láta frá sér mikið magn af metangasi.  En hitt vita kannski færri að eyðing skóga í Suður-Ameríku er fyrst og fremst af völdum nautgriparætkar.  Vegna aukinnar ásóknar jarðarbúa í rautt kjöt er sífellt verið að ryðja burt skógi svo að hægt sé að búa til tún fyrir nautgripi.  Náttúrulegir skógar eru ein helsta súrefnisuppspretta jarðarinnar og eyðing skóga er gífurlegt vandamál.

Með átakinu Fasta fyrir umhverfið þá vill kirkjan vekja fólk til meðvitundar um mikilvægi þess að það breyti lífsstíl sínum þannig að nútímamaðurinn hætti að ganga á auðlindir náttúrunnar, auðævi jarðarinnar.  Við þurfum að taka upp sjálfbæran lífsstíl.  Við þurfum að temja okkur hófsemi í stað þess að bruðla með og sóa náttúruauðlindum.  Við mennirnir eigum bara þessu einu jörð.  Og það er hlutverk okkar allra að skila þessari jörð þannig áfram til barnabarna okkar og afkomenda að þau geti einnig notið náttúrulegs og eðlilegs lífs.

Hækkun hitastigs á jörðinni gæti leitt til mikilla náttúrhamfara.  Notum föstuna til að hugsa málin.  Göngum inn í okkur sjálf og spyrjum okkur hvað við getum gert til að vernda náttúruna.  Bendum ekki á aðra.  Tökum sjálf ábyrgð á okkar lífi og umhverfi.

Magnús Erlingsson,

prestur á Ísafirði.

DEILA