Bæjarstjórn Vesturbyggðar vill að eftirlitsstörf með fiskeldi verði á svæðinu

Bæjarstjórn Vesturbyggðar afgreiddi á fundi sínum í gær samhljóða umsögn um frumvarp um fiskeldi, 647. mál.

Bæjarstjórnin fagnar þeim markmiðum að tryggja meiri stöðugleika í  rekstrarskilyrðum fyrir fiskeldi og að bæta stjórnsýsluna. Bæjarstjórnin bendir á að þegar eru framleidd um 10.000 tonn af eldislaxi á sunnanverðum Vestfjörðum og að burðarþol svæðisins sé 40.000 tonn og vill að opinber störf við eftirlit með eldinu verði staðsett á svæðinu. Á krafan einkum við ðum störf hjá Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og Hafrannsóknarstofnun.

Bókun bæjarstjórnar í heild:

Bæjarstjórn Vesturbyggðar fagnar þeim markmiðum sem frumvarpinu er ætlað að ná fram, að tryggja betri stöðuleika í rekstrarskilyrðum fyrirtækja í fiskeldi og auka gegnsæi í fiskeldi. Bæjarstjórn Vesturbyggðar fagnar sérstaklega markmiðum frumvarpsins um að efla stjórnsýslu og auka eftirlit með fiskeldi þannig að vernd og sjálfbærni í nýtingu auðlinda og náttúrugæða verði betur tryggð. Þrátt fyrir áherslur í frumvarpinu um innra eftirlit þá er ljóst af efni þess að aukin eftirlitsskylda er lögð á opinberar stofnanir sem hafa eftirlit með fiskeldi, þ.e. Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Hafrannsóknarstofnun. Í frumvarpinu er m.a. lögð áhersla á vöktun ástands þeirra fjarða sem fiskeldi hefur verið stundað í, í einhvern tíma sem og lífrænt álag þeirra svæða sem búið er að burðarþolsmeta af hálfu Hafrannsóknarstofnunar. Aukin áhersla er einnig lögð á aukið eftirlit og aðgerðir af hálfu Matvælastofnunar vegna fiskisjúkdóma og sníkjudýra í fiskeldi, svo sem laxalús. Einnig er aukin áhersla á umhverfisftirlit Umhverfisstofnunar á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Á sunnanverðum Vestfjörðum hafa Arnarfjörður, Patreksfjörður, Tálknafjörður og Patreksfjarðarflói verið burðarþolsmetnir fyrir 40.000 tonna framleiðslu. Nú þegar er 10.000 tonna framleiðsla til staðar á svæðinu. Bæjarstjórn Vesturbyggðar ítrekar kröfu sína um að störf þeirra sem sinna eftirliti með fiskeldi verði staðsett þar sem fiskeldið fer fram og með aukinni áherslu á að efla eftirlit með fiskeldi verði eftirlitsstörf framangreindra stofnana staðsett á sunnanverðum Vestfjörðum. Bæjarstjórn Vesturbyggðar bendir einnig á að samkvæmt könnun Byggðastofnunar frá 11. febrúar 2019 hefur orðið nokkur fækkun á opinberum störfum á sunnanverðum Vestfjörðum þrátt fyrir áherslur í sóknaráætlun Vestfjarða 2015-2019 um fjölgun og staðsetningu opinberra starfa og aukinna umsvifa í fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum. Bæjarstjórn Vesturbyggðar ítrekar því kröfu sína um að opinberar eftirlitsstofnanir sinni hlutverki sínu af alúð í þágu umhverfis og lífríkis sjávar með því að þeir starfsmenn sem sinni eftirliti með fiskeldi hafi fasta starfsstöð á sunnanverðum Vestfjörðum.Þannig verði stuðlað að aukinni vernd og eftirliti með sjálfbærri nýtingu auðlinda og náttúrugæða á svæðinu. Á sunnanverðum Vestfjörðum er enginn starfsmaður með fasta starfsstöð sem sinnir eftirliti með fiskeldi en þar fer fram eitt umfangsmesta sjókvíaeldi á landinu.

DEILA