Afrekssjóður HSV gerir samninga við Albert og Dag

Albert, Heimir og Dagur eftir undirritun samninga við Afrekssjóð HSV. Mynd:HSV.

Frá því er greint á síðu Hérðassambands Vestfjarða að afrekssjóður HSV hafi gert samninga við tvo ísfirska skíðamenn, þá Albert Jónsson og Dag Benediktsson frá Skíðafélagi Ísfirðinga.  Þei munu fá mánaðarlega greiðslur frá afrekssjóðunum út árið 2019.

Það var Heimir Hansson stjórnarmaður í HSV sem hitti þá félaga á Heimsmeistaramótinu í norrænum greinum sem fram fór í Seefeld í síðasta mánuði og skrifaði undir samninga við þá fyrir hönd Afrekssjóðs HSV. En þar voru þeir Albert og Dagur að keppa á mótinu.

HSV kynnir á Albert og Dag á síðu sinni með eftrifarandi hætti:

Albert Jónsson hefur síðustu ár verið í hópi sterkustu göngumanna landsins. Hann hefur tekið þátt í alþjóðlegum viðburðum og keppnum fyrir Íslands hönd undanfarin ár svo sem Olympíuhátíð Evrópuæskunnar í Austurríki 2015, æfingabúðum á Ítalíu á vegum Alþjóðlega skiðasambandsins árið 2016, HM U23 í Lahti í Finnlandií janúar og svo núna síðast HM fullorðinna í Austurríki. Albert var kjörinn íþróttamaður Ísafjarðarbæjar árið 2017. Albert er við æfingar og keppni í Noregi og stefnir á að komast á Olympíuleikana í Kína árið 2022.

Dagur Benediktsson hefur eflst mikið undanfarið sem gönguskíðamaður og var ásamt Alberti keppandi á HM U23 í Lahti í Finnlandi í janúar og lauk nýverið keppni á HM fullorðinna í Seefeld í Austurríki. Áður hefur hann keppt á Olympíuhátíð Evrópuæskunnar og Olympíumóti ungmenna. Á síðasta ári varð Dagur bikarmeistari SKÍ bæði í flokki fullorðinna og 19-20 ára. Í Fossavatnsgöngunni 2018 varð Dagur í 5. sæti. Dagur æfir og keppir nú í Svíþjóð með það að markmiði að komast á Olympíuleikana í Kína árið 2022.

DEILA