Bæjarráð Vesturbyggðar gerir athugasemd við þá staðhæfingu Skipulagsstofnunar ríkisins að ekki hafi verið gerð rannsókn á samfélagslegum áhrifum fiskeldis á Vestfjörðum og því ekki mögulegt að fullyrða um áhrif fiskeldis á íbúaþróun. Bendir bæjarráðið á að Byggðastofnun hafi unnið í ágúst 2017 skýrslu um byggðaleg áhrif fiskeldis, þar sem m.a. er fjallað um samfélagsleg áhrif fiskeldis á Vestfjörðum.
Í umræddri skýrslu segir í samantekt að gangi fyrirætlanir um uppbyggongu eftir muni það hafa veruleg áhrif á þær byggðir þar sem eldið verður. Eftirfarandi kafli er þar í framhaldinu:
„Vestfirðir hafa búið við mikla fólksfækkun undanfarin ár og áratugi. Framundan eru miklar breytingar á norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum, gangi áætlanir um um sjókvíaeldi eftir, og í raun má segja að svæðin fari þá úr nokkuð samfelldu samdráttarferli í uppbyggingar- og þensluferli með umtalsverðri fjölgun íbúa, byggingu íbúðarhúsnæðis og annarri uppbyggingu sem fylgir fólksfjölgun og breyttri aldurssamsetningu. Hvar áhrifin verða mest ræðst að miklu leyti af því hvar helstu starfsstöðvar fyrirtækjanna verða. Í þessu ferli mun reyna mikið á stjórnsýslu og innviði sveitarfélaganna á svæðinu.
Stærsta áskorunin á Vestfjörðum verður að útvega nægilegt íbúðarhúsnæði handa nýjum íbúum og halda uppi þjónustustigi.“
Athugasemd bæjarráðs er komin til vegna erindis Skipulagsstofnunar dags. 1. febrúar 2019 þar sem óskað er umsagnar um viðbót við frummatsskýrslu og kostagreiningu Fjarðarlax og Artic Sea Farm vegna 14.500 tonna framleiðsluaukningar á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði. Um er að ræða viðbót við fyrri frummatsskýrslu frá árinu 2015 vegna fjögurra úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 27. september og 4. október 2018.