Höfuðstöðvar Landsbankans, banka allra landsmanna í Austurstræti, er hús með sál og sögu. Þeir eru ekki margir bankarnir norðan Alpafjalla sem eiga svona fallega byggingu. En nú skal byggja nýja peningahöll úr steypu, járni og gleri á dýrasta stað í höfuðborginni og bílakjallara við hæfi. Níu milljarðar þar. Sennilega 15 milljarðar þegar upp verður staðið. Þingeyrarakademían leggur eindregið til að þessari vitleysu verði hætt nú þegar og lóð og heila klabbið selt.
Drottningin í væntanlegri voða stórri höll hefur á skömmum tíma fengið launahækkun sem er á við fimmföld mánaðarlaun verkamanns. Fimmföld. Þar með hefur hún ellefu sinnum hærri laun en gjaldkerinn í bankanum. Rök bankaráðsins eru þau að hún átti að fá þessa hækkun! Frúin í Íslandsbanka er svo sér á báti sem við höfum ekki þrek til að ræða. Ef fer sem horfir verða þessar ofurkonur fljótlega komnar með 10-15 milljónir á mánuði. Þingeyrarakademían leggur hins vegar til að enginn ríkisstarfsmaður hafi hærri laun en 2 milljónir á mánuði.
Allt sem hér hefur verið rakið er eins og blaut gólftuska framan í landsmenn. Bankasýslan og ráðherra koma af fjöllum og biðja náðarsamlegast um upplýsingar. Er enginn maður með viti sem fylgist með bönkum allra landsmanna?
Spyrja verður einnig: Hvað eru bankaráðsmennirnir með í árslaun fyrir dómgreindarleysið?