Reykhólar: halli á rekstri sveitarsjóðs

Fjárhagsáætlun Reykhólahrepps fyrir árin 2019 – 2022 var afgreidd í desember. Niðurstaða fyrir rekstur A hluta er að nokkur halli verður öll árin. Á þessu ári er gert ráð fyrir að hallinn verði 17 milljónir króna og fer hann vaxandi til 2022 þegar hann er áætlaður 28 milljónir króna, sem eru nærri 8% af tekjum þess árs. Á síðasta ári var reksturinn í jafnvægi.

Tekjur sveitarfélagsins er áætlaðar 329 milljónir króna á þessu ári. Þar eru framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hæst 180 milljónir króna. Útsvarstekjur verða 125 milljónir króna og fasteigangjöld 21 milljón króna.

Útgjaldamegin eru laun og tengd gjöld langstærsti liðurinn upp á 255 milljónir króna. Séu útgjöldin flokkuð eftir málaflokkum kemur í ljós að fræðslumál eru langstærsti liðurinn með 227 milljónir króna.

Helsta skýringin á versnandi afkomu frá 2017 er að launakostnaður hefur aukist úr 56,4% af tekjum þess árs upp í  63,7% af tekjum þessa árs, 2019. Fjögurra ára áætlunin gerir ráð fyrir því að launahlutfallið hækki í 65,4% árið 2022.

Niðurskurður í fjárfestingum

Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum verður aðeins 13,5 milljónir á þessu ári og lækkar úr 45 milljónum króna fjárfestingum í fyrra. Á næsta ári verður fjárfest fyrir 1 milljón króna, 20 milljónir króna árið 2021 og 7 milljónir króna 2022.

Góð skuldastaða

Fjárhagslega stendur sveitarfélagið vel og eru skuldir aðeins 115 milljónir króna. Það er um það bil þriðjungur af árstekjum sem er lágt hlutfall á landsvísu.

DEILA