Þetta spurði 8. ára sonur minn þegar við vorum að koma okkur í háttinn. Hverju hefðuð þið svarað?
Ég vil endilega deila með ykkur mínu svari. Þetta vakti mig til mikillar umhugsunar um samskipti manna á milli. Í einverunni hefur maður reynt að finna svör við því af hverju við erum vond við hvort annað. Af hverju við tölum ílla um aðra og reynum hvað við getum til að rýra hvort annað en föttum ekki að við rýrum bara okkur sjálf með því. Það er ljóst. Svar mitt til sonar míns var eitthvað á þessa leið.
Sá sem er ríkastur í bænum er sá sem er hamingjusamur, sáttur við sjálfan sig og aðra. Talar vel um samferðafólk sitt, er heill í samskiptum og á vini sem gagnkvæm virðing ríkir og algjör heilindi. Maður sem stendur með sjálfum sér og því sem hann eða hún standa fyrir. Það er rík manneskja. Það er góð manneskja.
En pabbi, hver er þá fátækastur í bænum?
Sá maður er fátækur sem hugsar ílla til annarra og kemur ekki hreint fram. Talar ílla um þig og grefur undan þér. Gleðst yfir óförum annarra og kann ekki að samgleðjast sannleikanum. Þetta er fólk sem ekki gott er að umgangast. Það er fátæk manneskja.
Í framhaldinu kom þetta allt heim og saman hjá mér. Sannleikurinn sem maður hefur verið að leita að en fattaði ekki að það var einskins að leita. Það var allan tímann fyrir framan mann, í 8. ára barni. Mér sjálfum. Björn í Brekkukoti afneitaði lögmálum hagfræðinnar á allan hátt og það sama getum við tileinkað okkur í samskiptum manna á milli. Þú breytir kannski ekki heiminum en þú getur ákveðið hverja þú umgengst og þá um leið sleppt gremjunni yfir því hvernig þér finnst annað fólk haga sér. Þú getur aðeins reynt að gera betur sjálfur.
Pabbi, hver er ríkastur í bænum?
Allir þeir sem eru hamingjusamir. Enginn einn.
Benni Sig