Miðvikudaginn 13. febrúar, kl. 13:00, mun Kelly Umlah verja meistaraprófsritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Í rannsókn sinni gerði Kelly tilraun með vegmálningu til að forða kríuungum frá því að fara upp á veginn við Bolungarvík og verða fyrir bílum og eins til að koma í veg fyrir að kríurnar angri vegfarendur á göngustígum.
Vörnin fer fram í Háskólasetri Vestfjarða og er opin almenningi.
Leiðbeinandi verkefnisins er líffræðingurinn Kristinn Ólafur Kristinsson hjá Fiskistofu en prófdómari er dr. Freydís Vigfúsdóttir, sérfræðingur við Háskóla Íslands.
Útdráttur:
Samfara vaxandi umsvifum mannsins aukast líkur á að dýr láti lífið í árekstum við farartæki á vegum. Sérstaklega á þetta við um farfugla eins og Kríu (Sterna paradiase), sem ferðast um langan veg og eru oft á ferð þar sem búast má við umferð ökutækja. Í þessari rannsókn var gerð tilraun til að fæla kríur frá vegkafla við Bolungarvík á Íslandi með þeirri aðferð að lita hluta af yfirborði vegarins með rauðri málningu. Gagna um fjölda einstaklinga í kríuvarpi við tilraunakaflann var aflað þannig, að gengið var um varpið og hreiður talin. Á meðan á tilrauninni stóð var farið þrisvar daglega meðfram umræddum vegkafla og dauðar kríur taldar. Jafnframt var skráður fjöldi kría sem sátu á máluðum hluta tilraunakaflans og ómáluðum, auk þess sem lofthiti, veðurfar, tími dags og viðvera afræningja var skráð hverju sinni. Fjöldi fugla í varpinu reyndist vera 4.949, og þéttleiki hreiðra 0,072-0,136 hreiður/m2. Gögn um fjölda dauðra kría á tilraunakaflanum uppfylltu ekki kröfur um tölfræðilega greiningu. Marktækt færri kríur kusu að sitja á máluðum hluta tilraunakaflans heldur en ómáluðum samanburðarkafla (p=0.007). Áhrif lofthita (p=0,434), veðurfars (p=0,866), tími dags (p=0,883) eða viðvera afæningja (p=0,529) á veru kría á hvorum hluta tilraunakaflans um sig reyndust ekki marktæk. Niðurstöður þessarar rannsóknargefa til kynna að rauðmálað yfirborð fæli kríur frá vegum. Frekari rannsókna er þörf til þess að staðfesta skilvirkni aðferðarinnar, en ætla má að rauðmálað yfirborð vega, samhliða öðrum ráðstöfunum sem vinna að sama marki, geti stuðlað að því að minnka fugladauða á vegum á Íslandi.