Vestfjarðastofa er að vinna að því að koma á fót samráðshópi starfsmanna Vestfjarðastofu og allra sveitarfélaga á Vestfjörðum. Gert er ráð fyrir allt að 15 manns í hópnum sem haldi fundi mánaðarlega fram í maí en þá er stefnt að því að verkefninu verði lokið.
Aðalverkefni samráðshópsins er að koma með athugasemdir á efni innviðagreiningar svo hægt sé að vinna vandaða og skilvirka greiningu sem tekur á öllum innviðum Vestfjarðakjálkans í heild. Vinnsla innviðagreiningar fyrir Vestfirði hefur verið gerð áður og er nú komið að uppfærslu og betrumbótum.
Helsta markmiðið með gerð innviðagreiningar er að þeir sem hafa hug á að fjárfesta á Íslandi sjái Vestfirði sem spennandi valkost fyrir fjárfestingu sína, og það gefi greinargóða mynd af því sem sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa upp á að bjóða.