Innheimta á veggjöld í jarðgöngum – sums staðar

Frá vígslu Bolungavíkurganga í september 2010. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Samgönguáætlun var afgreidd á Alþingi í gær. Samþykkt var að fjármagna ákveðnar framkvæmdir með tekjum af veggjöldum. Þær eru allar á suður og suðvestur hluta landsins. Ein Þeirra er vegurinn frá Akranesfjalli að Borgarnesi 30 km leið sem kostar 6 milljarða króna.

Veggjöld verða tekin upp á þremur stofnleiðum út frá höfuðborgarsvæðinu til Suðurnesja, Suðurlands og Vesturlands.

Þá  verði skoðað með jafnræði fyrir augum hvort ákveðnar leiðir á landsbyggðinni sem stytta vegalengdir verði fjármagnaðar með blandaðri fjármögnun; að hluta til með fjárframlögum af samgönguáætlun og að hluta til með lántöku sem verði greidd upp með gjaldtöku. Gjaldtöku verði hætt þegar lán verður greitt upp. Dæmi um framkvæmdir sem fallið gætu í þennan flokk eru hringvegur um Hornafjarðarfljót og Axarvegur.

Um jarðgöng segir:

Innheimta megi veggjald í jarðgöngum á Íslandi samkvæmt nánari útfærslu, með undantekningum þar sem svo er ákveðið.  Gjaldtöku í jarðgöngum verði ætlað að standa undir þjónustu og rekstri jarðganga, sem er hærri fjárhæð en á samsvarandi löngum stofnvegakafla, og einnig hlut í nýbyggingum. Gjaldtakan verði liður í nýrri jarðgangaáætlun sem væri hluti af samgönguáætlun með það að markmiði að ekki verði hlé á uppbyggingu jarðganga. Í þeirri áætlun verði jafnframt tilgreint hvaða jarðgöng falla undir gjaldtöku og í hversu langan tíma.

Það er því enn óljóst hvernig útfærslan verður, t.d. hvort gjald fyrir akstur um jarðgöngin á Vestfjörðum verði tekin upp og ef svo er þá hvernig. Það sem hefur verið ákveðið er hin pólitíska ákvörðun um að taka upp veggjald og auka verulega fjármagn til samgönguframkvæmda.

DEILA