Frá því er sagt á Reykhólavefnum að tengdafeðgarnir Sigmundur Magnússon og Guðmundur Sigvaldason fóru í byrjun mánaðrins í flugferð til að svipast um eftir fé í dölunum Djúpmegin við Kollafjarðarheiðina.
Fundu þeir 6 kindur í svonefndri Lambatungu, sem er milli Mjóadals og Geitadals, sem gengur inn af Laugabólsdal. Nokkrum dögum síðar fór Brynjólfur Smárason á vélsleða yfir Kollafjarðarheiði og náði að reka féð yfir í Fjarðarhornsdal, þar sem það var svo sótt daginn eftir.
Þetta reyndust vera 2 tvílembur frá Fremri Gufudal, og voru kindurnar í góðu ásigkomulagi að því fram kemur í fréttinni.