Íbúum í Ísafjarðarbæ fækkaði um 22 frá 1. desember 2018 til 1. febrúar 2019. Íbúum Vestfjarða í heild fækkaði um 10 á þessu tveggja mánaða tímabili.
þetta kemur fram í frétt frá þjóðskrá Íslands.
Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ var inntur eftir skýringum. Hann svaraði því til að „við sjáum ekki í þessum tölum hvaða byggðalög þetta eru. Við sjáum bara númer hvers sveitarfélagsins. En við vitum að stór hluti þessarar sveiflu frá því í desember er leiðrétting á röngum lögheimilisskráningum á Þingeyri. Þannig kemur til dæmis fram í gögnunum að 10 af þessum 22 íbúum fluttu erlendis frá Ísafjarðarbæ.“
Á móti fækkuninni í Ísafjarðbæ vegur að í Súðavík og Bolungavík fjölgaði um 5 íbúa á hvorum stað. Á sunnanverðum Vestfjörðum fjölgaði um 3 í Vesturbyggð og óbreyttur íbúafjöldi er í Tálknafirði.
Í Reykhólahreppi fækkaði um 1, en í Strandasýslu var óbreytt íbúatala. Þó urðu breytingar innan Strandasýslu, fækkun um 2 í Árneshreppi og 1 í Strandabyggð en fjölgun um 3 í Kaldrananeshreppi.
Fækkun í þremur landshlutum af átta
Fækkun hefur orðið í þremur landshlutum frá 1. desember sl. Mest fækkaði á Vesturlandi eða um 33 íbúa sem er 0,2% fækkun. Ennfremur var lítilsháttar fækkun á Austurlandi og Vestfjörðum.
Hlutfallslega mest fjölgun varð á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum eða um 0,4%. Íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgaði um 824 íbúa og íbúum á Suðurnesjum um 121 íbúa.