Bæjarráð Bolungavíkur ræddi um húsnæðismál í bænum á síðasta fundi sínum. Umræða fór fram um þróun fasteignamarkaðarins í Bolungarvík og áhrif sveitarfélagsins á hann.
Bókað var :
Bæjarráð Bolungarvíkur fagnar þeirri uppbyggingu á nýju íbúðahúsnæði sem átt hefur sér
stað í Bolungarvík undanfarin misseri. Bæjarráð leggur áherslu á frekari uppbyggingu
húsnæðismarkaðar í Bolungarvík, en aukning í húsnæðisúrræðum er mikilvæg fyrir
frekari þróun samfélagsins. Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna minnisblað með tillögum
að aukningu íbúðahúsnæðis í Bolungarvík til lengri og skemmri tíma.
Eins og greint hefur verið frá á bb.is hefur G. Hans Þórðarson keypt verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem upphaflega var í eigu Einars Guðfinnssonar hf og er að breyta tveimur hæðum þess í 6-7 leiguíbúðir. Þá er verið að breyta einni hæð í verslunarhúsæði við Aðalstrætið, sem Jón Fr. Einarsson byggði og átti, í leiguíbúðir. Virðist því verða nokkur eftirspurn eftir húsnæði og að leiguverðið standi undir kostnaði við kaupverð og breytingar húsnæðisins.