Bíldudalskarlar í Reykjavík

Bíldudalskarlar fara yfir stöðu mála. Myndir: Guðmundur Bjarnason.

Undanfarin ár hafa brottfluttir karlar frá Bíldudal hist reglulega síðasta laugardag í hverjum mánuði drukkið kaffi og rætt málefni Bíldudals í fortíð, nútíð og framtíð. Mismunandi er hvað margir mæta en fjöldinn getur verið frá 10 upp í 30. Mikill áhugi er meðal hópsins að fá að heyra hvernig uppbyggingin á Bíldudal gengur og eru menn stolltir af þeim krafti sem nú einkennir gömlu heimabyggðina.

Síðasta laugardag voru 25 mættir í golfskála GKG í Kópavogi en þar er samkomustaður karlanna í vetur. Víkingur Gunnarsson frá Arnarlax mætti á staðinn og fór yfir stöðuna í laxeldinu, leyfismálin og þá samfélagsuppbyggingu sem fram undan er.

Mikið var spurt og leyndi sér ekki að menn höfðu áhyggjur af því að öfl í þjóðfélaginu nái að stoppa þessa miklu framfarir sem nú eru að verða í atvinnuuppbyggingu Vestfirðinga.

Til þess að fá þetta allt beint í æð og sjá með eigin augum ætla karlarnir að fjölmenna í skoðunarferð vestur á Bíldudal í mai mánuði og heimsækja Arnarlax og Kalþörungaverksmiðjuna en þar er líka gífurleg uppbygging búin að vera og framundan er mikil stækkun.

Guðmundur Bjarnason, Arnfirðingafélaginu.

DEILA