25. Strandagangan

Um helgina var Strandagangan 2019 haldin. Strandagangan er skíðagöngumót og er hluti af Íslandsgöngunni, sem er röð skíðagöngumóta sem trimmnefnd Skíðasambands Íslands hefur efnt til árlega síðan 1985. Íslandsgöngunni er ætlað að höfða til allra sem áhuga hafa á skíðaíþróttum, bæði þeim sem leitast eftir ánægjulegri og hollri útiveru og eins metnaðarfyllra keppnisfólki.

Fyrsta Strandagangan var árið 1995 og var hún því haldin í 25. skiptið og hefur aldrei fallið úr keppni síðan hún hófst. Gangan er fyrir alla aldurshópa, vana sem óvana. Strandagangan fór fram á skíðasvæði Skíðafélags Strandamanna í Selárdal í Steingrímsfirði og var keppt í 5, 10 og 20 km vegalengdum.

Rósmundur Númason, formaður Skíðafélags Strandamanna sagði í samtali við Bæjarins besta að 144 hefðu gengið að þessu sinni og hafa aldrei verið fleiri. Aðeins einu sinni áður voru þátttakendur fleiri en 100.

Veitt voru bikarar í verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hverjum flokki og allir keppendur fengu þátttökupening. Það var fyrirtækið Martak ehf í Grindavík sem gaf bikarana.

Keppendur komu frá Reykjavík, Ólafsfirði, Akureyri og Ísafirði auk Strandamanna.

Það var 20 km gangan sem er hluti af Íslandsgöngunni.Þar voru þátttakendur 89 talsins. Fyrstur karla var Gísli Einar Arnarson, Akureyri  og Jakob Daníelsson, Ísafirði varð í öðru sæti. Fyrst kvenna varð Elsa Guðrún Ólafsdóttir frá Ólafsfirði.

Elsti þátttakandinn var Gerður Steinþórsdóttir sem er fædd 1944 og hefur hún tekið þátt í göngunni tíu sinnum.

Í gær, sunnudag voru svo skíðaleikir fyrir yngri kynslóðina og dagskránni lauk með veglegu pítsahlaðborði.

Myndir: Ingimundur Pálsson og fleiri.

Gerður Steinþórsdóttir, göngugarpur.

 

 

DEILA