Nú fyrir skemmstu skrifaði hljómsveitin Une Misère, sem inniheldur Vestfirðinginn Benjamín Bent Árnason frá Vöðlum í Önundarfirði, undir samning við útgáfufyrirtækið Nuclear Blast sem er eitt það stærsta innan þungarokksstefnunnar,.
Þetta markar upphafið á samstarfi sem hefur verið unnið að í rúm tvö ár en fyrir hljómsveitina hefur hugsunin alltaf verið: „Heimurinn eða ekkert“.
Í fréttatilkynningu segir að „þessar fréttir ekki að koma almenningi á óvart miðað við það umtal af kröftugri sviðsframkomu og öflugum skilaboðum sem hljómsveitin hefur að flytja gagnvart geðsjúkdómum, fíknivandamálum og hvernig tekið er á þeim í dag.
Nuclear Blast barst orð af hljómsveitinni og útgáfan áttaði sig strax á að þetta væri eitthvað sem hana langaði að hýsa.“
Meðlimir Une Misère eru að sjálfsögðu yfir sig hrifnir af gangi mála og eru virkilega spenntir að fá þetta tækifæri til að komast nær markmiði sínu.
Aðspurðir tala þeir um að áður en hljómsveitin var stofnuð þótti þeim ansi fjarstæðukennt að eitthvað eins og þetta myndi í rauninni gerast – að þetta stór draumur myndi í alvöru rætast.
Nuclear Blast hefur hýst og hýsir mörg af allra stærstu nöfnum þungarokks heimsins í dag en þar má nefna Slayer, Meshuggah og Behemoth. Það að vera nefndir á nafn í sömu andrá er að sjálfsögðu mikill heiður og þetta er ekki eitthvað sem drenginir í Une Misère segjast ætla láta fara til spillis.
Af gefnu tilefni var ákveðið að gefa út myndband við nýtt lag.
Damages fjallar um það að vera staddur á brúninni og það er engin undankomuleið í sjónmáli. Það fjallar um það að finna ekki fyrir neinu öðru en öllu því versta sem maðurinn getur ímyndað sér. Damages fjallar um þunglyndi, kvíða og fíkn því eins og er þá munu geðsjúkdómar og fíkn alltaf vera til staðar, þetta er ekki læknanlegt ástand. Hinsvegar er það meðhöndlanlegt – með hjálp.
Við hvetjum alla sem eiga erfitt eða eru að glíma við sjálfan sig að leita sér hjálpar. Tala við einhvern. Það er alltaf einhver sem er til í að hlusta.
Lagið er tileinkað Bjarna Jóhannesi Ólafssyni, góðum vini sem yfirgaf þennan heim alltof snemma.
Mynd; Amy Haslehurst.
Myndbandið á Youtube; https://www.youtube.com/watch?v=V6gSfs8_iuE