Vilja meiri fisk seldan á markaði : 30% – 70% verðmunur

Arnar Atlason, formaður SFÚ.

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda áttu í síðustu viku fund með fulltrúum Fiskmarkaðs Suðurnesja, Fiskmarkaðs Íslands, Fiskmarkaðs Vestfjarða, Fiskmarkaðs Norðurlands og Reiknistofu Fiskmarkaða. Málefni fiskmarkaða landsins voru rædd og mikilvægi þeirra fyrir aukna verðmætasköpun í sjávarútvegi.

Fundarmenn voru sammála um að skora á stjórnvöld að tryggja að allur sá afli sem ekki kemur til vinnslu hjá samþættum útgerðar- og vinnslufyrirtækjum, þ.e. afli sem er seldur á milli ótengdra aðila, verði boðinn til sölu í uppboðskerfi fiskmarkaðanna. Fundurinn telur að með þessu móti megi tryggja að hæsta verð fáist fyrir þennan hluta auðlindarinnar, að sjálfstæðar fiskvinnslur hafi greiðan aðgang að hráefni og þjóðarhagur sé þar með hámarkaður.

Arnar Atlason, formaður SFÚ, sagði samtali við Bæjarins besta að lengi hefði verið við lýði tvöföld verðmyndun á fiski sem þýddi að útgerðin fengi viðvarandi afslátt á launum sjómanna. Í beinum viðskiptum er að jafnaði miðað við verð frá Verðlagsstofu skiptaverðs. Það er, segir Arnór , verulega lægra en það verð sem fæst á fiskmarkaði. Munurinn er frá 30% – 70% sé miðað við stöplarit sem birt er á heimasíðu samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda. „Af þeim sökum verður þjóðin af umtalsverðum tekjum“  segir Arnór og bætir við að stærstu útgerðir landsins ættu ekki að þurfa þennan afslátt.“ Látum markaðsöflin ráða verði á fiski og hámörkum þannig arðinn af auðlindinni.“ Arnór Atlason rekur fiskvinnslufyrirtækið Tor ehf, sem er kvótalaust fiskvinnslufyrirtæki,  og hefur gert síðan 1995.

 

Í hverjum mánuði birtir Sea Data Center seadatacenter.com samanburð á meðalverði hvers mánaðar frá Reiknistofu fiskmarkaða og viðmiðunarverð Verðlagsstofu skiptaverð fyrir óslægðum þorski af meðalstærð 2.0-3.5 kg. Breyting á viðmiðunarverði tók gildi þann 7. janúar 2019.

Samanburður á verði síðustu 15 mánaða má sjá í myndinni hér að neðan þar sem meðalverð frá Verðlagstofu skiptaverð er með svartri línu og meðalverð Reiknistofu fiskmarkaða með appelsínugulri línu. Grafið hér að neðan hefur verið uppfært miðað við tímabilið 1. til 14. janúar 2019.

DEILA