Í Vesturbyggð hafa verið kynnt drög að skýrslu um innviðauppbyggingu fyrir atvinnulíf í Vesturbyggð. Er horft til næstu 5 – 10 ára. Efla verkfræðistofa hefur unnið að skýrslunni í samstarfi við sveitarfélagið.
Tekið er fram að skjalið er ennþá á vinnslustigi og eftir á að klára lokakafla skýrslunar þar sem ólíkum sviðsmyndum verður stillt upp. Íbúum og fyrirtækjum er gefin kostur á að senda inn athugasemdir og/eða ábendingar við skýrsluna til 20. janúar nk.
Skýrsludrögin eru 100 bls. Þar er að finna greiningu á landnotkun, veitum og sorpi, samgöngum og samfélaginu. Síðan eru settar fram nokkrar mismunandi sviðsmyndir sem nota á til þess að taka stefnumótandi ákvarðanir.
25% – 40% fólksfækkun
Athyglisverð er sú sviðsmynd að stærstu fyrirtækin á svæðinu fái ekki endurnýjun
á leyfum til auðlindanýtingar. Er þá horft má til þeirra atburða sem áttu sér stað haustið 2018 þegar úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi rekstrarleyfi sem Matvælastofnun hafði veitt Arnarlaxi og Artic Sea í Patreksfirði og Tálknafirði (Fiskifréttir, 2018).
Segir í skyrslunni að „sú sviðsmynd sem hefði orðið að veruleik út frá þessum niðurstöðum hefði haft mikil áhrif á framboð starfa innan sveitarfélagsins og líklega stuðlað að fækkun íbúa.“
Fækkun starfa yrði 120 – 200 ef sú yrði raunin, að mati skýrsluhöfunda og íbúafækkun yrði 240 – 400 manns. Það er hvorki meira né minna en 25% – 40% fólksfækkun. Skiljanlega heitir sú sviðmynd aftur til fortíðar.
Eða 25% -50% fjölgun
Verði hins vegar aukning í fiskeldinu og líka kalkþörungavinnslunni og að nýtt fyrirtæki hæfi starfsemi er talið að störfum muni fjölga um 120 – 180 sem þýddi að íbúafjöldum yrði 340 – 460 manns að meðtöldum afleiddum störfum.