Þrífösun rafmagns flýtt

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mun leggja til þriggja ára átak í að flýta þrífösun rafmagns í væntanlegri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2020-2024.

Þetta er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar sem kveðið er á um að flýta áformum um þrífösun. Átakið hefur einnig beina skírskotun til byggðaáætlunar sem Alþingi samþykkti síðastliðið sumar, þar sem áhersla er lögð á þrífösun.

Í dag er meira en fjórðungur af öllu dreifikerfi RARIK einfasa, sem takmarkar bæði flutningsgetu kerfisins og það hve öflugan rafbúnað er hægt er að nota á hverjum og einum stað. Þrífösun er því mikilvæg út frá orkuskiptum, byggðasjónarmiðum, ferðaþjónustu, landbúnaði og öðrum atvinnutækifærum. Auk þess má nefna að nýir strengir eru iðulega lagðir í jörð, í samræmi við stefnu stjórnvalda, sem hefur jákvæð umhverfisáhrif.

Samkvæmt núgildandi áætlunum verður þrífösun ekki lokið fyrr en eftir 16 ár eða árið 2035.

Þriggja ára átak – 80 mkr á ári

Tillagan gengur út á tvennt: í fyrsta lagi aukið fjármagn, um 80 milljónir kr. á ári í þrjú ár, og í öðru lagi breytta forgangsröðun. Í stað þess að forgangsraða eftir aldri núverandi raflína og álagi á þær verði einnig horft til þess hve mikil þörf er fyrir þrífösun og hvort samlegðaráhrif séu með áætlunum um lagningu ljósleiðara.

Féð verður notað til að standa straum af flýtigjaldi sem RARIK tekur fyrir að flýta framkvæmdum.

Í þessum þriggja ára áfanga, árin 2020-2022, verður lögð áhersla á að ljúka þrífösun á tveimur svæðum: Skaftárhreppi og Mýrum.

Byggðaáætlun – 400 mkr á ári

Í þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018– 2024, sem samþykkt var á Alþingi 11. júní 2018, er í aðgerðaáætlun að finna sérstakt verkefni um þrífösun rafmagns með tillögu að 400 millj. kr. fjármögnun úr byggðaáætlun (sbr. lið B.1 Þrífösun rafmagns).

908 mkr á Vestfjörðum árið 2008

Rétt er að minna á að í skýrslu frá 2008 kemur fram að þrífasa þurfi 264 km á Vestfjörðum og kostnaðurinn við þar er áætlaður 908 milljónir króna á verðlagi þá ( fyrir hrun). Um 70% af fjárhæðinni er vegna þrífösunar í vesturbyggð og Árneshreppi.

Beðið er svara frá Iðnaðarráðuneytinu um áform ráðherra um þrífösun á Vestfjörðum.

 

DEILA