Sveitarstjórnmenn við Djúp afboðaðir

Vilhjálmur Árnason, alþm.

Á síðustu stundu urðu verulegar breytingar á fyrirkomulagi fundar samgöngunefndar Alþingis í gær um vegamálin í Gufudalssveit. Fundurinn var haldinn að ósk sveitarfélaganna í Vestur Barðastrandarsýslu. Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð sagði að fyrir þeim hefði vakað að fá alla hlutaðeigandi inn á sama fundinn og fara þar yfir málin í sameiningu í þeirri von að afstaða hvers og eins skýrðist. Það gekk ekki eftir.

Vilhjálmur Árnason, alþm var starfandi formaður á fundinum í gær í fjarveru Jóns Gunnarssonar. Sagði hann í samtali við Bæjarins besta á Ísafirði að einhverjir nefndarmenn hefðu gert athugasemd við fyrirkomulag fundarins og töldu að fundurinn næði ekki markmiðum sínum ef of margir gestir væru inn á fundinum í einu og þeir færu að þrátta sín í milli í stað þess að svara spurningum þingmanna.

Fundinum var breytt þannig að fulltrúar Reykhólahrepps  komu fyrir nefndina sér en ekki með öðrum sveitarstjórnarmönnum að vestan og fulltrúar sveitarfélaganna við Djúp voru afboðaðir. Vilhjálmur sagði að til stæði að þeir kæmu fyrir samgöngunefndina um miðjan janúar.

Þá komu fulltrúar Vegagerðarinnar og skýrðu málin frá sínum sjónarhóli og sagði Vilhjálmur að Vegagerðin hefði verið með mjög sannfærandi rök fyrir sinni afstöðu.

Stefnt er að því að Samgöngunefndin afgreiði frá sér fyrir mánaðamót samgönguáætlun til næstu ára og þar verða væntanlega tillögur um fjárveitingar til vegagerðar í Gufudalssveit.  Aðspurður sagðist Vilhjálmur Árnason hafa skilið áform Reykhólahrepps þannig að stefnt væri að ákvörðun sveitarstjórnar fyrir lok janúar.

DEILA