Stuðningur við einkarekna fjölmiðla: frumvarp í opið samráð

Lilja Alferðsdóttir, menntamálaráðherra.

Frumvarp um opinberan fjárstuðning við öflun og miðlun frétta og fréttatengds efnis var kynnt í dag. Það er unnið á grundvelli stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að bæta þurfi rekstrarumhverfi fjölmiðla og því meginmarkmiði stjórnvalda að efla lýðræðislega umræðu og lýðræðisþátttöku.

Frumvarpsdrögin má nú finna í Samráðsgátt stjórnvalda þar sem áhugasamir eru hvattir til þess kynna sér efni þess og senda inn umsagnir og ábendingar. Ráðgert er að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi í vor.

Meginefni frumvarpsdraga
• Komið verði á fót nýju stuðningskerfi fyrir einkarekna fjölmiðla hér á landi vegna kostnaðar sem fellur til við miðlun frétta, fréttatengds efnis og umfjöllunar um samfélagsleg málefni. Styrkirnir verði í formi endurgreiðslu á allt að 25% af hluta ritstjórnarkostnaðar.
• Hámarksfjárhæð stuðnings til hvers umsækjenda verði 50 milljónir kr. á ári.
• Mögulegt verði að veita staðbundnum miðlum viðbótarendurgreiðslu.
• Ráðgert er að framlag ríkisins nemi 300-400 milljónum kr. á ári.

Ávinningur
Þess er vænst að stuðningur við einkarekna fjölmiðla verði hvatning til aukinnar framleiðslu á vönduðu og faglegu fréttaefni á íslensku, þar með talið verkefna á sviði rannsóknarblaðamennsku. Ráðgert er að stuðningurinn renni styrkari stoðum undir rekstur héraðsmiðla og auki sjálfstæði minni fjölmiðla t.d. gagnvart auglýsendum.

Fjölmiðlar mikilvægir fyrir lýðræðið

„Hér á landi hefur ríkið ekki veitt fjölmiðlum beinan stuðning eins og lengi hefur verið gert annars staðar á Norðurlöndunum og víðar í Norður-Evrópu. Fjölbreyttir og traustir fjölmiðlar eru mikilvægir fyrir lýðræðið á hverjum tíma og fyrir okkur Íslendinga er hlutverk þeirra einnig sérlega brýnt þegar kemur að íslenskri tungu og menningu. Okkar fyrsta úrlausnarefni er að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla og ég fagna því að geta í dag kynnt frumvarpsdrög sem ég tel að muni stuðla að öflugri fjölmiðlun hér á landi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

DEILA