Tryggingastofnun ríkisins (TR) hefur hlunnfarið stóran hóp öryrkja um milljarða króna á undanförum árum. Bætur til yfir þúsund einstaklinga hafa verið skertar á grundvelli búsetu erlendis. Sú lagaframkvæmd TR stenst ekki. Þetta staðfestir velferðarráðuneytið sem segir í bréfi til velferðarnefndar Alþingis að TR hafi haft yfir hálfan milljarð af öryrkjum á hverju einasta ári í mörg ár.
Ofangreint kemur fram í fréttatilkynningu frá Öryrkjabandalagi Íslands.
Tildrög málsins eru þau, samkvæmt því sem rakið er af hálfu ÖBI að bætur til yfir þúsund einstaklinga hafa verið skertar á grundvelli búsetu. Sú lagaframkvæmd TR stenst ekki samkvæmt því sem segir í bréfi Velferðrráðuneytisins til velferðarnefndar Alþingis dags 21. desember 2018 og fram kemur í öðru bréfi ráðuneytisins frá nóvemberlokum að fjárhæðirnar sem TR hafi haft af öryrkjum séu yfir hálfan milljarð af öryrkjum á hverju einasta ári í mörg ár.
Fram kemur í bréfi Velferðarráðuneytisins að til standi að leiðrétta það sem fólk var hlunnfarið um fjögur ár aftur í tímann. Ekki hefur verið haft samráð við Öryrkjabandalag Íslands vegna þessa máls, en ÖBÍ telur ljóst að leiðrétta þurfi að minnsta kosti áratug aftur í tímann
Í september 2018 komst Umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að túlkun Tryggingastofnunar á búsetuskerðingu standist ekki. Umboðsmaður segir í álitinu að stofnunin og úrskurðarnefnd velferðarmála verði að fara yfir öll mál af þessu tagi.
Daníel Isabarn lögmaður ÖBI sagði í sjónvarpsviðtali á Stöð 2 að hin ólögmæta framkvæmd hefði staðið yfir í a.m.k. 10 ár og jafnvel í allt að 20 ár.
Öryrkjabandalagið skýrir málið svona:
Um hvað snýst málið?
Samkvæmt lögum um almannatryggingar miðast full réttindi til örorkulífeyris og tengdra bóta við það að einstaklingur hafi haft búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Þar sem einstaklingar sem metnir eru til örorku hafa oftar en ekki búið (og jafnvel lifað) skemur en 40 ár þarf að áætla búsetuna þegar örorkan er ákveðin.
Í lögunum segir að þegar um skemmri búsetutíma en 40 ár sé að ræða reiknist rétturinn í hlutfalli við búsetutímann. Þá segir einnig í lögunum að við ákvörðun búsetutíma örorkulífeyrisþegar skuli reikna með tímann frá og með örorkumati fram til 67 ára aldurs.
ÖBÍ hefur viljað túlka þetta með þeim hætti að öll ár fram að örorkumati skuli meta sem búsetu einstaklings hér á landi. Hafi einstaklingur t.d. búið 10 ár í Danmörku en 10 ár á Íslandi þegar hann er metin til örorku 36 ára þá beri að taka árin til 67 ára (31 ár) með sem búsetu á Íslandi. Samtals búseta væri þannig 41 ár hjá einstaklingnum og fullur réttur til örorkulífeyris.
TR hefur túlkað ákvæðið þannig að taka skuli búsetuna eins og hún var við örorkumat og líta svo á að hún hefði skipst með sama hætti það sem eftir er til 67 ára aldurs. Í sama dæmi og að framan hefði þannig einstaklingur sem hefði búið 10 ár í Danmörku en 10 ár á Íslandi, á tímabilinu frá 16 ára fram að örorkumati, verið metin með 50% búsetu á Íslandi til framtíðar. Þessi 36 ára einstaklingur væri þannig einungis með 50% rétt til örorkulífeyris til frambúðar.
Um niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis
Umboðsmaður taldi að framangreind túlkun TR hefði hvorki stoð í lögum né viðeigandi reglum Evrópuréttar. Raunar taldi hann að íslensk lagaákvæði, með hliðsjón af stjórnarskrárvörðum rétti fólks til aðstoðar, og Evrópureglur bentu allar til öndverðrar niðurstöðu eins og ÖBÍ hefur bent á í mörg ár. Umboðsmaður taldi að ekki yrði önnur ályktun dregin af viðeigandi lagareglum en að reikna bæri öll framtíðarár frá fyrsta örorkumati fram til 67 ára aldurs til búsetu á Íslandi.