Samræmd móttaka flóttafólks og efling Fjölmenningarseturs

Íslenskt samfélag hefur langa reynslu af að taka á móti flóttafólki sem hingað hefur komið fyrir tilstuðlan Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna en frá 1956 hefur reglulega verið tekið á móti flóttafólki sem hefur komið í boði stjórnvalda. Móttaka kvótaflóttafólks hefur gengið vel á Íslandi og hafa samfélög víðs vegar um landið tekið flóttafólki opnum örmum og fólk sem hefur komið hingað upplifað sig velkomið. Gott dæmi er hér á Vestfjörðum en fyrir tæpu ári tóku Vestfirðingar í annað sinn á móti hópi flóttafólks og í þetta sinn frá Írak og Sýrlandi, fjölskyldum sem höfðu neyðst til að flýja heimaland sitt vegna stríðsátaka.

Minni reynsla er þó af því að taka á móti flóttafólki sem kemur hingað til lands á eigin vegumen á síðasta ári fengu yfir 230 einstaklingar, sem komu á eigin vegum, vernd. Sveitarfélög, félagasamtök og aðrar stofnanir hafa unnið aðdáunarvert starf við að veita flóttafólki aðstoð við að taka sín fyrstu skref í samfélaginu; sumir þurfa umfangsmikla þjónustu á meðan aðrir eru fljótir að aðlagast og verða virkir. Ákall hefur komið bæði frá sveitarfélögum og félagasamtökum um að stjórnvöld komi á samræmdri móttöku fyrir flóttafólk óháð því hvernig það kemur til landsins.

Í síðustu viku kynnti ég á Ísafirði tillögur stjórnvalda um samræmda móttöku flóttafólks, óháð komu þess til landsins, en um er að ræða eina af aðgerðunum í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem samræmist vel stefnu ríkisstjórnarinnar um að tryggja eigi samfella þjónustu og aðstoð við flóttafólk sem fær vernd.

Til þess að tryggja að móttaka flóttafólks verði sem best þá verður Fjölmenningarsetrið eflt til muna og fær aukið hlutverk til að vinna bæði með sveitarfélögum og flóttafólki. Jafnframt verður Vinnumálastofnun falið að veita flóttafólki íslensku- og samfélagsfræðslu því að kostnaðarlausu. Lykilaðilar við farsæla móttöku flóttafólks verða þó ávallt sveitarfélögin og samfélagið sjálft, eins og vel hefur sést hefur hér á Vestfjörðum. Stjórnvöld munu auglýsa eftir sveitarfélögum sem eru áhugasöm um að taka formlega á móti flóttafólki og verður gerður samningur við þau sveitarfélög.

Ég vonast til að sem flest sveitarfélög séu tilbúin til þess að taka þátt í þessu brýna verkefni og að Fjölmenningarsetrið á Ísafirði standi vel undir auknum verkefnum og ábyrgð.

 Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra

 

 

DEILA