Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra segir í færslu á facebook í gær að umferðaröryggi eigi að vera forgangsmál.
Þá segir hann:
„Banaslys og alvarleg slys í umferðinni eru alltof mörg. Vegagerðin hefur unnið ötullega að öryggisaðgerðum á þjóðvegum við að bæta merkingar. Nú fyrir skemmstu ákvað Vegagerðin að lækka hámarkshraða í 50 km/klst. við allar einbreiðar brýr þar sem umferð er meiri en 300 bílar á dag, að jafnaði. Einnig er unnið að því að eyða svartblettum, eins og t.d. að lengja vegrið eða laga vegfláa til að draga úr hættu á að fólk slasist alvarlega við útafakstur. Síðast en ekki síst er brýnt að fjölga stöðum meðfram vegum þar sem ferðamenn geta stöðvað til að njóta landsins án þess að valda sjálfum sér eða öðum hættu.“
Athyglisvert er að ráðherrann vekji sérstaklega máls á þessu atriði núna þegar framundan er fundur með forsvarsmönnum Reykhólahrepps um vegamál í Gufudalssveit. Af þessu má ráða að ráðherrann muni líta fyrst á umferðaröryggið við val á leið. Þá má velta því upp hvernig ráðherrann muni telja best að verja þeim rúmum 7 milljörðum króna sem verða til ráðstöfunar á næstu tveimur árum ef Þ-H leiðinni verður hafnað. Miðað við áherslurnar í færslunni mun verða litið á þær framkvæmdir sem draga mest úr slysum og auka öryggi umferðinni á landsvísu. Þær framkvæmdir eru ekki á Vestfjörðum.