Núna kl 9 í morgun var sveitarstjóra Reykhólahrepps afhentur undirskriftalisti þar sem mótmælt er að R leiðin verði valin. Undir mótmælin skifuðu 95 manns, þar af eru 2/3 með lögheimili í hreppnum og 1/3 utan hans, en það eru fasteigna- eða jarðeigendur eða reka fyrirtæki í hreppnum.
Til samanburðar þá voru 52 undirskriftir í fyrravor fyrir R leiðinni á undirskriftalista sem þá fram kom.
Textinn er svohljóðandi:
„Við ábúendur, íbúar og aðrir sem málið varðar viljum mótmæla því að svokölluð R leið verði valin sem hluti af stofnvegakerfi fyrir sunnanverða Vestfirði með tilheyrandi vegalagningu út Reykjanesið og stóraukinni umferð út Barmahlíðina.“
Kristján Þór Eberneserson, bóndi á Stað sagði í samtali við Bæjarins besta að hann teldi að meirihluti væri fyrir því í hreppnum að mótmæla R leiðinni.
Íbúar í Reykhólahreppi voru 259 í byrjun ársins, þar af tæplega 200 á kjörskrá.